Lífið

Íshúsið opnar í Hafnarfirði

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Íshúsið mun hýsa ýmiskonar hönnuði, iðn- og listamenn.
Íshúsið mun hýsa ýmiskonar hönnuði, iðn- og listamenn. VÍSIR/GVA
„Þetta er klasi af smáverkstæðum í listiðnaðargeiranum og iðnaði. Fimmtán verkstæði úr mismunandi greinum,“ segir Ólafur Gunnar Sverrisson, skipasmiður og einn þeirra sem stendur að stofnun Íshúss Hafnarfjarðar.

„Það er smíðaverkstæði, þrívíddar verkstæði, hnífasmiður frá Grikklandi, átta keramik hönnuðir, fjöllistakona, grafíklistakona, danskur verkfræðingur og fræðimenn. Þetta er stór flóra og við stefnum á að bæta við hana,“ heldur hann áfram. „Okkur fannst þetta vanta og ákváðum að taka þetta skrefinu lengra.“

Í framtíðinni ætlar Íshús Hafnarfjarðar að standa fyrir ýmiskonar starfsemi. „Við stefnum á að taka á móti hópum, halda örnámskeið og lengri námskeið,“ segir hann.

„Þetta er gamla íshúsið við höfnina í Hafnarfirði, þannig það nafn lá beinast við. Það var ógurlega erfitt að finna nafn sem átti við alla, þetta er stór hópur og ólíkar greinar. Svo er ennþá ísverksmiðja í húsinu,“ segir Ólafur um tilurð nafnsins.

„Samstarfið er lykilatriði. Þeir sem eru í sköpuninni geta einbeitt sér að henni. Það geta ekki allir gert allt og við munum nýta styrk hvors annars á ólíkum sviðum.“

Íshús Hafnarfjarðar mun sjá um markaðssetningu, leita að samstarfsaðilum og þjóna sem allsherjar utanumhalds aðili fyrir þá hönnuði, iðn- og listamenn sem verða þar innanhúss.

Formleg opnun Íshússins verður á laugardaginn og er öllum frjálst að koma og skoða sig um í húsakynnum þeirra að Strandgötu 90. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×