„Þetta er allt voðalega gaman,“ segir Óttarr Proppé, bakraddasöngvari Pollapönks og eini starfandi alþingismaður sem keppt hefur í Eurovision. „Við lögðum mikið í þetta en vorum ekki viss hvort við kæmumst áfram, sérstaklega ekki eftir að það var búið að lesa upp níu önnur lönd.“
Óttarr segir mikla spennu hafa verið í B&W-höllinni í Kaupmannahöfn, þegar aðeins eitt umslag var eftir.
„Já, það er ekki annað hægt,“ segir hann. „Sérstaklega ekki í þúsund manna höll þar sem allir draga andann í einu. Það var mikil stemning.“
Óttarr þurfti að fljúga til Íslands frá Kaupmannahöfn og til baka um helgina til að taka þátt í úrslitum Útsvars í liði Reykjavíkurborgar. „Það er þannig að þegar maður kemur sér í vanda með því að lofa sér á marga staði, þá verður maður líka að standa sig vel,“ segir Óttarr, sem ætlar ekki að skreppa aftur til Íslands fyrir lokakeppnina. „Ég geri ráð fyrir því að sofa mikið í júlí.“
Hann vill skila miklu þakklæti fyrir hvað boðskapnum hafi verið tekið vel. „Nú fáum við stærra svið til að dreifa honum.“
Þúsund manns drógu andann í einu
Bjarki Ármannsson skrifar
