Körfubolti

Tvær þrennur hjá tveimur mönnum í sömu sögulegu vikunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emil Barja og Pavel Ermolinskij.
Emil Barja og Pavel Ermolinskij. Vísir/Stefán
Tveir íslenskir körfuboltamenn hafa verið í miklum ham að undanförnu og hafa um leið gert áhlaup á metabækurnar í einvígi sínu um hvor verði þrennukóngurinn í Dominos-deild karla í körfu.

Emil Barja setti nýtt íslenskt met á fimmtudagskvöldið þegar hann náði þrennu í sigri í Keflavík en kvöldið eftir bætti Pavel Ermolinskij bæði íslenska metið hans Emils sem og met Brentons Birmingham.

Það liðu sex dagar á milli þrenna Emils (á móti Njarðvík og Keflavík) en aðeins fjórir dagar á milli þrenna Pavels (á móti Keflavík og Þór úr Þorlákshöfn). Fyrir þessa miklu þrennuviku í íslenska körfuboltanum hafði aðeins einn leikmaður náð tveimur þrennum í hús á einni viku.

Met Brentons Birmingham var orðið rúmlega fjórtán ára gamalt en hann var með þrennur með fimm daga millibili sem leikmaður Grindavíkur í desember 1999. Brenton var þá ekki kominn með íslenskt ríkisfang.

Pavel Ermolinskij lét ekki þar við sitja heldur varð um leið fyrsti leikmaðurinn í úrvalsdeild karla til að landa sex þrennum á einu og sama tímabilinu. Hann átti gamla metið sjálfur þegar hann var með fimm þrennur tímabilið 2010-11. Pavel er kominn með yfirburðaforystu í þrennum í sögu úrvalsdeildar karla en þær eru núna orðnar fjórtán hjá honum í deildarleikjum.

Emil kom upp með Haukum síðasta vor og hefur verið að gera frábæra hluti með nýliðunum úr Hafnarfirðinum. Pavel snéri aftur í KR eftir tvö tímabil í atvinnumennsku í Svíþjóð og er þegar búinn að gera betur hvað varðar þrennur en á hinu magnaða tímabili sínu 2010-11.

Emil og Pavel eru tvö mjög góð dæmi um frábæra leiðtoga í sínum liðum sem bera lið sín uppi án þess að þurfa að skora mikið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×