Viðskipti innlent

Vilja eiga milligöngu um kaup aflaheimilda

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/daníel/pjetur
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar vill að bærinn eigi milligöngu um að aflaheimildir verði keyptar af Vísi hf. Þetta kemur fram á vefsíðu Bæjarins besta.

Daníel Jakobsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, staðfestir þetta í samtali við RÚV og segir að mikilvægt sé að tryggja þessari nýju vinnslu aflaheimildir og var því óskað eftir því að Vísir selji þeim hluta af sínum heimildum sem voru til staðar þegar fyrirtækið fór af stað á Þingeyri.

Á fundi bæjarráðs í morgun var lagt fram minnisblað Daníels Jakobssonar, bæjarstjóra, um atvinnumál á Þingeyri og hefur Daníel verið falið að senda stjórnendum Vísis bréf um kaup á aflaheimildum.

Fram kemur í minnisblaðinu að eftir að Vísir hf  tilkynnti um lokun fiskvinnslunnar á Þingeyri var settur á laggirnar vinnuhópur á vegum bæjaryfirvalda og Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða og hefur Byggðastofnun jafnframt komið að starfi hans. Aflaheimildirnar sem bærinn vill að verði keyptar af Vísi eru þær sem voru lagðar inn í Fjölni hf. sem var í eigu Vísis og fleiri aðila.

Bæjarráð Norðurþings samþykkti á fundi sínum síðastliðinn mánudag að óska eftir viðræðum um kaup á eignum og aflaheimildum Vísis á Húsavík. Vísir tilkynnti í lok marsmánaðar að fyrirtækið hyggðist hætta allri starfsemi á Djúpavogi, Húsavík og Þingeyri á næstu mánuðum og færa hana alfarið til Grindavíkur þar sem fyrirtækið er með höfuðstöðvar.




Tengdar fréttir

Norðurþing vill kaupa starfsemi Vísis

Sveitarfélagið Norðurþing stefnir á að kaupa bæði eignir og aflaheimildir útgerðarfyrirtækisins Vísis hf. á Húsavík. Neyðarúrræði segir sveitarstjóri Norðurþings.

Vísismálið áminning til stjórnvalda

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar segir útilokað fyrir eigendur Vísis hf. að loka starfsstöðvum á Þingeyri, Húsavík og Djúpavogi, án samráðs við þá sem tengist málinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×