Handbolti

Sturla: Ég gæti vanist þessu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Vilhelm
Annan leikinn í röð var Sturla Ásgeirsson hetja ÍR en hann tryggði sínum mönnum eins marks sigur á Fram með marki úr vítakasti á lokasekúndum leik liðanna í Olís-deild karla í handbolta í kvöld.

„Ég gæti vanist þessu enda gaman að klára leiki svona. En auðvitað væri betra að vinna með stærri mun. Hefðum við unnið með 4-5 marka mun hefðum við náð fjórða sætinu af Frömurum. Það hefði gefið fleiri heimaleiki í síðustu umferðinni,“ sagði Sturla. „En við erum sáttir við stigin tvö.“

ÍR vann Selfoss í bikarnum á mánudaginn og Sturla segir að ef til vill hafi leikmenn verið örlítið þreyttir í kvöld.

„Við ætluðum ekki að leyfa Fram að keyra upp hraðann enda mikið hraðaupphlaupslið. Mér fannst við hafa ágæta stjórn á leiknum þó svo að þetta hafi verið tvísýnt á kafla.“

Hann segir að flest lið eigi möguleika á að ná inn í úrslitakeppnina í vor. „Þetta snýst fyrst og fremst um að vinna heimaleikina og ná kannski einum til viðbótar. Þá ættu menn að vera inni. Haukarnir hafa sýnt mesta stöðugleikann í deildinni en ég tel að allir geti unnið alla - líka Haukana.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×