Bílar

Zanardi misstir fæturna en keppir fyrir BMW

Finnur Thorlacius skrifar
Zanardi fyrir framan BMW keppnisbíl sinn.
Zanardi fyrir framan BMW keppnisbíl sinn.
Þann 15. september á EuroSpeedway í Lausitz árið 2001 umturnaðist líf Alessandro Zanardi. Þennan dag hóf hann keppni aftarlega á ráslínu og þurfti því að vinna sig upp í efri sæti og það var einmitt í þeirri baráttu þegar Alex, eins og hann er venjulega kallaður, lenti í árekstri við Patrick Carpentier eftir að hafa snúið bílnum vegna of mikillar inngjafar.

Alex hefði getað sloppið því höggið af bíl Carpentier var ekki mikið en aðvífandi bíll Alex Tagliani bar hinsvegar örlög Zanardi með sér þar sem hann lenti þversum á bíl Zanardis með þeim afleiðingum að hann missti báða fætur og þrjá fjórðu af blóði sínu. Það var aðeins fyrir skjót viðbrögð læknateymisins á brautinni að það tókst að bjarga lífi hans.

Alex Zanardi er hinsvegar ekki maður sem gefst auðveldlega upp og aðeins tveimur árum eftir þetta alvarlega slys var Alex farinn að keppa á ný í kappakstri, meðal annars aftur á brautinni sem hann hafði næstum týnt lífinu. Þar ók hann á allt að 310 km/klst hraða þrátt fyrir fyrri reynslu. BMW hefur stutt dyggilega við bakið á Zanardi og hóf Zanardi að keppa fyrir hönd BMW árið 2005 og er Alex nú kominn aftur í ökumannssætið á BMW Z4 GT3 bíl sem hefur verið breytt sérstaklega fyrir hann. 



Það má búast við að Alex nái góðum árangri enda hefur hann nokkrum sinnum náð á verðlaunapall þrátt fyrir að þurfa að aka með allt öðrum hætti en aðrir keppendur. Mótaröðinni verður hleypt af stað þann 21. apríl og verður hún kennd við Blancpain GT Sprint.






×