Innlent

Norðmenn líta til Íslands til að komast hjá viðskiptabanni

Gissur Sigurðsson skrifar
vísir/stefán
Norskir hagsmunahópar í sjávarútvegi hafa uppi hugmyndir um að landa síld í stórum stíl hér á landi, sem síðan yrði flutt til Rússlands, framhjá viðskiptabanni Rússa á fiskafurðir frá Noregi. Málið verður rætt á fundi allra hagsmunahópanna, sem haldinn verður í dag, fyrir tilstuðlan norska sjávarútvegsráðuneytisins.

Reyndar eru svipaðar vangaveltur uppi um Færeyjar, sem eru ekki heldur á bannlista Rússa og segja norskir fjölmiðlar að þarlendir hafi tekið vel í hugmyndina.  Norðmenn hafa sérstakar áhyggjur af laxaútflutningi og enn meiri áhyggjur af síldarútflutningi, en þeir selja Rússum um það bil fjórðung af öllum síldarafurðum sínum. Þess vegna er verið að skoða þessa hjáleið.

Birgir Ármannsson formaður utanríkismálanefndar Alþingis sagði í viðtali við Fréttablaðið nýverið að menn verði að hafa í huga að ekki sé hægt að fara með viðskipti hingað til lands sem annars hefðu átt sér stað milli Evrópusambandsríkja og Rússa, en á það er að líta að hugmyndir Norðmanna eru þær að norsk síldveiðiskip lönduðu afla sínum hér á landi og seldu hann íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum, sem síðan gætu selt afurðirnar til Rússlands. Upprunaland væri ekki heldur vandamálið því bæði Íslendingar og Norðmenn veiddu þá síld , sem þeir selja Rússum, úr sameiginlega Norsk- íslenska síldarstofninum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×