Veiði

Hrun í smálaxastofninum er ekki einsdæmi á Íslandi

Karl Lúðvíksson skrifar
Sjókvíar við strendur Noregs
Sjókvíar við strendur Noregs
Það hrun sem hefur orðið í smálaxagöngum hér á landi er ekki einsdæmi því svo til allar laxveiðiár í Evrópu glíma við sama vandamál.

Í Skotlandi hefur hrun í göngum þetta árið verið lýst sem hamförum en það orð er ekki hægt að nota yfir stöðuna á Íslandi í samanburði við ástandið í Skotlandi.  Heilt yfir er laxgengdin núna 30% af meðalári í Skotlandi en það eru nokkrar ár hér á landi sem eiga eftir að vera á svipuðum stað þegar árið verður gert upp, það er nokkuð ljóst, en það er þá líka í fyrsta skipti sem þær fara svo illa út úr veiðisumrinu.  Við Skotland hafa hagsmunaaðilar veiðiánna mestar áhyggjur af netaveiði í sjó en rætt er um að bátarnir við strendur Skotlands hafi hreinsað upp stærstan hluta göngunnar sem ætlaði í árnar.  Kallað er eftir banni á netaveiðum, setja kvóta á stangarveidda laxa sem má hirða og stækka bannsvæði í ánum til að hlífa sem mestum fiski við veiðum þar sem hann undirbýr sig fyir hrygningu.

Í Noregi er það sama uppá tengingum í flestum ám og veiðin aðeins brot af því sem hún er venjulega.  Vandamálin þar eru þó af öðrum toga en í SKotlandi.  Gífurlega mikið laxeldi meðfram ströndum landsins hefur eyðilagt mörg af bestu veiðisvæðunum.  Faraldur í laxalús geysar þar sem stærstu kvíaeldin í sjó eru staðsett með tilheyrandi hruni í þeim ám þar sem laxalúsin drepur náttúrulegu seiðin af því sem virðist mikilli skilvirkni.  Erfðablöndun er einnig eitt af því sem Norðmenn segja að hafi eyðilagt stofna í mörgum ám og við þá firði þar sem kvíaeldi hefur verið sem lengst er varla til sú á sem hefur veiðanlegan náttúrulegan laxastofn.  Pankras vírusinn herjar einnig á laxastofnana með þeim afleiðingum að afföll og dauði hrygningarfiska er líklega um 80-90%.

Á sama tíma er rætt um að auka strandeldi við Ísland og þau fyrirtæki sem standa að eldinu hafa fullyrt að lax sleppi ekki úr kvíunum en það gerðist samt í sumar, hann leiti út á haf en ekki í árnar en mikið af laxi hefur veiðst í Patreksfirði þar sem mikið af laxi slapp úr kvíum og síðan hefur því verið haldið fram að laxinn hrygni ekki en nýleg sýni af veiddum löxum þaðan sýna að sá lax sem var kominn í árnar var fyllilega búinn til þess líffræðilega að hrygna.

Hagsmunir lengri tíma verða á endanum að hafa meira vægi en skammtímasjónarmið, alveg sama þótt einhver störf skapist í einhvern tíma.  Það er margsannað að kvíaeldið hefur skaðleg áhrif á laxveiðiárnar nálægt þeim og eyðileggur það starf sem þar hefur verið unnið.  Möguleiki til að halda góðum rekstri í laxeldi gæti fólgist í því að vera með eldið í lokuðum stöðvum inní landi.  Vissulega er kostnaðurinn við að reisa slíka stöð mikill en sé verið að hugsa um að byggja fyrirtæki í eldi til lengri tíma hlýtur það að vera skárri kostur í stöðunni heldur en að fórna náttúrulegum stofnum í ánum á kostnað eldisstöðva sem hafa aldrei verið langlífar í rekstri, því miður.










×