Heilsa

Skotheld stefnumótaráð

sigga dögg kynfræðingur skrifar
Hvernig væri að vinda sér upp að næstu manneskju sem þér líst vel á og bjóða upp á einn kaffibolla?
Hvernig væri að vinda sér upp að næstu manneskju sem þér líst vel á og bjóða upp á einn kaffibolla? Mynd/Getty
Það er ekki rík stefnumótamenning á Íslandi en hún er þó sífellt að færast í aukana. Fyrir sumum þá eru stefnumót við ókunnuga manneskju óþægileg tilhugsun því samræðurnar gætu verið þvingaðar og óáhugaverðar.

 

Í stað þess að fara í saumana á sameiginlegum fésbókarvinum eða grunnskólafélögum, prófaðu þessa samræðutækni og umræðuefni:

 

1. Talaðu um ferðalög, frekar en bíómyndir.

Þegar fólk talar saman um bíómyndir þá getur það leitt til ósættis um ólíkan smekk á kvikmyndum. Þegar fólk hins vegar talar um ferðalög þá rifjar það upp kærar minningar og jafnvel drauma um framtíðaráfangastaði.

 

2. Haltu samræðunum gangandi með því að deila, en einnig að hlusta.

Rétt eins og kasta bolta á milli ykkar þá þarf bæði að kasta og grípa. Ef þú nærð að halda þessum takti þá ættu samræðurnar ekki að staðna.

 

3. Talaðu frá hjartanu, spurðu einlægra spurninga og vertu hreinskilin.

Nýleg rannsókn á nánd leiddi í ljós að fólk sem deildi innilegum upplýsingum gat orðið mjög náið á 45 mínútum, þó það væri að tala við einhvern ókunnugan. Þetta spjall jók á traust á milli einstaklinganna og það skapaði nánd. Innilegar spurningar eins og:

Myndir þú vilja vera fræg/ur? Fyrir hvað? Hvað telst sem hinn fullkomni dagur í þínum augum? Ef þú værir að halda matarboð og mættir bjóða hverjum sem er, lífs eða liðinn, hverjum myndir þú bjóða? Hvað er vinátta í þínum augum? Ef þú gætir valið einn eiginleika eða ofurkraft sem þú myndir fá, hvað væri það? Hver er dýrmætasta minningin þín? Hverju myndir þú bjarga úr húsinu þínu ef það myndi kvikna í því?

 

Það er um að gera að kynda vel undir kolunumMynd/Getty
 

4. Veldu umræðuefni sem vekja upp deilur og eru eldfim

Þá erum við að tala um umræðuefni eins og staðgöngumæðrun, stjórnmál og kynsjúkdóma. Ótrúlegt en satt þá hefur þetta verið rannsakað og fólk sem talar um viðkvæm málefni er ánægðara með samræðurnar en þeir sem tala um hlutlausa hluti líkt og málefni líðandi stundar. Þú lærir meira um manneskjuna og hennar sýn á þessi málefni og samræðurnar verða áhugaverðari.

 

5. Finnst þér bjór bragðgóður?

Það kann að hljóma undarlega en samkvæmt einni könnun þá voru þeir einstaklingar sem sögðust þykja bjór bragðgóður frekar til í tuskið (lesist, opnari fyrir því að sofa hjá á fyrsta stefnumóti).

 

Auðvitað er þetta einungis viðmið en það getur verið ágætt að hafa einhverjar punkta bakvið eyrað ef þér finnst þú hafa ekkert til að spjalla um.








×