Lífið

Steinn skemmtir túristum á hjóli

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Steinn Ármann segir Danina öfluga og Hollendingana besta að hjóla. Portúgalarnir séu latastir á pedölunum.
Steinn Ármann segir Danina öfluga og Hollendingana besta að hjóla. Portúgalarnir séu latastir á pedölunum. Vísir/Daníel
„Ég hef verið leiðsögumaður í fjögur sumur og hef mjög gaman af því,“ segir leikarinn Steinn Ármann Magnússon en hann starfar hjá The Bike Company og fer með hópa fólks í leiðsögutúra um stræti borgarinnar á reiðhjóli.

Steinn Ármann er mikill hjólreiðamaður og segir reiðhjólið vera sitt helsta samgöngutæki. Hann segist að mestu fara með erlenda ferðamenn í leiðsögutúrana og að hann sjái og finni mun á fólki á milli landa, hvað varðar reiðhjólatækni og hraða. „Hollendingar eru bestir að hjóla og Danirnir eru einnig öflugir. Portúgalarnir eru hins vegar latastir og Norðmenn kom helst á óvart,“ útskýrir Steinn Ármann og hlær.

Hann fer þó einnig með innlenda hópa í ferðir. „Ég er duglegur að grínast í ferðunum en grínast þó mest þegar ég er með íslenska hópa.“

Hann hrósar íslenskum ökumönnum fyrir að vera mjög tillitssamir í umferðinni gagnvart reiðhjólafólki. „Mér finnst allt í lagi að reiðhjólafólk hjóli á götunni þegar hámarkshraðinn er 30 kílómetrar en á hraðbrautum er betra að halda sig á hliðarstígum. Annars er ég eiginlega hættur að þora að hjóla á götunni, ég er orðinn svo lífhræddur,“ bætir Steinn Ármann við.

Honum finnst að fólk megi ganga betur um stræti borgarinnar. „Í túrnum mínum í morgun sprakk á tveimur hjólum út af glerbrotum, fólk má ekki henda flöskum svona í jörðina.“

Steinn Ármann útskrifaðist úr leiðsöguskólanum árið 2010 og kann vel við sig í starfinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.