Handbolti

Verður ekkert vandamál að mæta í Vodafone-höllina

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Stefán tekst nú á við nýja og spennandi áskorun.
Stefán tekst nú á við nýja og spennandi áskorun. fréttablaðið/daníel
„Ég er búinn að skrifa undir þriggja ára samning við Fram,“ segir Stefán Arnarson, fráfarandi þjálfari Íslandsmeistara Vals og nýráðinn þjálfari kvennaliðs Fram.

Stefán var að bræða með sér að taka sér frí frá þjálfun eftir sex farsæl ár með Valsstúlkur.

„Þetta er ný áskorun og Fram er með mjög efnilegt lið. Ég hef átt frábær ár hjá Val og held ég hafi kreist úr því liði það sem hægt var. Því er gott að snúa sér að öðru verkefni núna. Þetta Fram-lið er mjög spennandi og það er fín umgjörð í kringum kvennaliðið, sem er mikill kostur.“

Einu sinni þótti það mikil synd er menn skiptu á milli Fram og Vals. Það þykir ekki vera neitt stórmál lengur og Stefán hlakkar bara til að koma aftur á sinn gamla heimavöll.

„Það eru flestir vinir mínir þar og þetta verður því ekkert vandamál. Ég er alveg klár á því að þeir verða enn vinir mínir næsta vetur. Þetta er gott fólk.“

Stefán er ekki enn byrjaður að skoða leikmannamál félagsins en hann segir ólíklegt að hann reyni að lokka einhverjar stelpur úr Valsliðinu yfir í Safamýrina.

„Ég er mjög ánægður með þessa ákvörðun en því er ekki að leyna að ég var mikið að pæla í því að taka frí. Þetta tækifæri er aftur á móti mjög spennandi og ég ákvað að slá til.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×