„Þau fengu ágætis frið. Það kvisaðist út að þau væru hérna þannig að það var mun meira að gera en á venjulegu sunnudagskvöldi,“ sagði Jóhann Halldórsson, veitingamaður á Paddy‘s í samtali við 24 stundir.
Jay Z og félagar hans sötruðu bjór og fengu sér vodkastaup á meðan þeir fylgdust með leik Dallas Cowboys og New York Giants í úrslitakeppni í bandarísku NFL deildinni. Beyoncé fékk sér hins vegar glas af 7-Up.

„Ég sleppti ekki þessu tækifæri að kíkja aðeins á drottninguna. Ég talaði við Beyoncé þegar hún kom inn og bað um að fá að taka myndir og svona með tveimur af eldri krökkunum mínum. Hún sagði að ég gæti komið með krakkana og svoleiðis en vildi engar myndatökur."
Stjörnuhjónin gistu á Hótel Keflavík þessa einu nótt sína á Íslandi árið 2008. Samkvæmt frétt Víkufrétta um málið tóku þau alla fjórðu hæðina á leigu. Steinþór Jónsson, hótelstjóri Hótel Keflavíkur, sagði í samtali við Víkurfréttir á þessum tíma að Beyoncé hefði ekki verið með stjörnustæla.
„Hún var afar geðþekk og elskuleg og ég kvaddi hana með gjöf frá listakonunni Guðlaugu Helgu Jónsdóttur, systur minni. Þetta var handgerður diskur með Íslandsmynd þannig að nú á Beoncé eitthvað til minningar um Ísland," sagði Steinþór. Í samtali við 24 stundir sagði hann að hún hafi verið almennileg.
„Hún var flott eins og alltaf og klædd í flottan pels,“ sagði hann. „Hún heilsaði öllum og svona en gaf sér ekki tíma í að gefa eiginhandaráritanir eins og gestirnir báðu um. En hún var almennileg og vinkaði öllum.“