Lífið

Krumma elskar egg og beikon

Birta Björnsdóttir skrifar
Dúfur og kanínur koma oftar en ekki fyrir í atriðum töframanna en öllu sjaldgæfara er að krummum bregði þar fyrir. Það gæti þó orðið breyting þar á þar sem þessari hér er ýmislegt til lista lagt.

„Ég hef lengi verið mikill fuglaáhugamaður og hef meðal annars þjálfað dúfur,“ segir Einar Mikael, töframaður, sem þjálfað hefur Krummu undanfarna mánuði.

„Ég frétti af mjög gæfum hrafni sem bjó að Vatnsholti og ákvað að kíkja í heimsókn. Ég sá fljótlega að Krumma gæti ýmislegt og fékk leyfi til að þjálfa hana.“

Krumma kann nú ýmis töfrabrög og kann einnig að segja nokkur orð, meðal annars heyrðu og hæ. Hvort sem það var vegna þess að þetta var hennar fyrsta sjónvarpsviðtal eða ekki skal ósagt látið en hún var ófáanleg til að segja orð, þó hún sýndi hljóðnemanum mikinn áhuga.

Og Krumma nýtist töframanninum vel, hún kann að draga spil og sveifla töfrasprota svo fátt eitt sé nefnt, en Krumma kemur fyrir í nýjum sjónvarpsþáttum Einars Mikaels sem væntanlegir eru í næsta mánuði.

„Þetta eru frábær dýr, svo gáfuð og gæf. Hrafninn er líka svo íslenskur og það er gaman að geta vekið meiri athygli á honum með þessum hætti,“ segir Einar Mikael.

Og eftir allt erfiðið var Krummu boðið upp á uppáhalds matinn sinn, beikon og hrátt egg í glasi, eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.