Lífið

Fólkið á Airwaves: Í hlutverki vængkonunnar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hinar eldhressu Jill Casavant og Natalie Spaeth frá Atlanta.
Hinar eldhressu Jill Casavant og Natalie Spaeth frá Atlanta. Vísir/Andri Marinó
Vinkonurnar Jill Casavant og Natalie Spaeth eru frá borginni Atlanta í Georgíufylki í Bandaríkjunum eru spenntar fyrir Iceland Airwaves tónlistarhátíðinni. „Ofurspenntar,“ segir Jill en þær stöllur voru mættar í Hörpu í gærkvöldi eftir að hafa lent um morguninn í Keflavík.

Aðspurðar hvað hafi orðið til þess að þær létu slag standa og skelltu sér á Iceland Airwaves í ár er Natalie fljót til svars: „Mig langaði að sjá The Knife og hef heldur aldrei komið.“ Jill stekkur til og minnir á að hún eigi líka afmæli. Natalie skammast sín aðeins fyrir að hafa gleymt þeirri ástæðu og greinilegt að um eins konar afmælisferð er að ræða.

Jill neitar að upplýsa blaðamann um hversu ung hún sé. „Ertu ekki 29?“ spyr blaðamaður og uppsker bros og svar um að ágiskunin hljómi ljómandi vel. „29 er það!“

Natalie segist vera mikið tónlistarnörd og þekkja ágætlega til íslenskrar tónlistar. Atlanta iði af tónlist og þangað komi listamenn að úr öllum áttum. Á listanum yfir það sem þær ætla að sjá eru fjölmargar hljómsveitir. Nefnir Natalie FM Belfast, Tomas Barfod, Le Femme og For a Minor Reflection. Þá minnir hún á frábær bönd að eigin sögn úr stórborginni og nefnir sem dæmi Deer Hunter og Black Lips.

Jill er greinilega alveg jafnmikil áhugamanneskja um tónlist, í það minnsta ekki tónlistarnörd, og tekur undir með blaðamanni hvort hún sé eins konar vængkona fyrir vinkonu sína á hátíðinni. Jill viðurkennir að hún sæki Ísland heim með opnum hug og hefði gaman af því að hitta skemmtilegt fólk og sæta stráka.

Natalie er einbeitt á tónlistarþátt hátíðarinnar og segist bara fylgjast með strákunum úr fjarlægð.

„Ef þeir vilja spjalla við mig þá er ég samt alveg til,“ segir hún hlæjandi.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.