Lífið

"Íslendingar eru villtir"

Baldvin Þormóðsson skrifar
Þeir Robert Del Naja og Grant Marshall eru spenntir fyrir að stíga á svið í Laugardalnum í kvöld og segja Íslendinga vera með orð á sér fyrir að vera villtir.
Þeir Robert Del Naja og Grant Marshall eru spenntir fyrir að stíga á svið í Laugardalnum í kvöld og segja Íslendinga vera með orð á sér fyrir að vera villtir.
Hljómsveitin Massive Attack hefur verið starfrækt síðan árið 1988 og segja meðlimir margt hafa breyst síðan þeir stigu fyrst á stokk. Fyrir viku stigu þeir í fyrsta sinn á svið í fjögur ár og ætla að spila blöndu af gamalli og nýrri tónlist í kvöld á Secret Solstice-hátíðinni. 

„Við erum rosalega jarðbundnir gæjar. Týpurnar sem fáum okkur frekar nokkra drykki og sígarettu fyrir tónleika í staðinn fyrir að vera að biðja um rauð m&m og hausanudd,“ segir Robert Del Naja, annar meðlimur Massive Attack.

Hljómsveitin hefur verið starfrækt síðan 1988 og eru Del Naja og Grant Marshall forsprakkar hennar. Mikið hefur breyst á seinustu 26 árum en strákarnir í Massive Attack hafa aðlagast tækninýjungunum vel.

„Þetta er tvíþætt, annars vegar hefur allt breyst og hins vegar hefur ekkert breyst. Þegar við byrjuðum þá var raftónlist rosaleg handavinna, þú þurftir að vanda þig rosalega mikið við hvern einasta takt og hafðir mjög takmarkaða palettu af hljóðum.“

Sveitin hefur ekki spilað á tónleikum í um það bil fjögur ár en hún kom fram á Sónarhátíðinni í Barcelona í seinustu viku og segir Del Naja að tónleikarnir á Íslandi verði öðruvísi.

„Það er allt öðruvísi á Íslandi,“ segir hann og hlær. „Það er svo erfitt að byrja aftur að spila eftir langan tíma, því þú þarft að spila eitthvað gamalt sem fólk kannast við en þú þarft líka að uppfylla þessa þörf hjá þér sjálfum að gera eitthvað nýtt,“ segir Del Naja sem hefur fjórum sinnum áður komið til Íslands.

„Ég hef alveg upplifað báðar hliðar veðursins,“ segir tónlistarmaðurinn sem hefur bæði verið á Íslandi um mitt sumar og miðjan vetur en honum finnst báðar árstíðirnar hafa sinn sjarma. „Maður þarf samt að vakna svo snemma að vetri til, því ef maður rétt svo blikkar augunum missir maður af deginum.“



Del Naja segist einnig vera mikill aðdáandi íslenskrar tónlistar og hlakkar til þess að sjá íslensku hljómsveitirnar sem koma fram á hátíðinni.

„Það er svo einstakt, þegar þú ert með stað sem er eins einangraður og Ísland er þá fær tónlistin tækifæri til að þróast án þess að verða fyrir of miklum áhrifum annars staðar frá,“ segir hann og ber tónlistarsenuna á Íslandi lauslega saman við senuna í Bristol, þar sem Massive Attack byrjaði sinn tónlistarferil.

„Bara það að Bristol sé 200 kílómetra frá London hjálpaði tónlistarsenunni að þróast án þess að verða fyrir þeim truflunum sem fylgja oft stórborgum.“ 

Eins og fram hefur komið þá fer Massive Attack á svið í Laugardalnum í kvöld og hlakka þeir til þess að spila og kynnast einhverjum Íslendingum. „Íslendingar hafa orð á sér að vera villtir, ég er alltaf spenntur að koma til Reykjavíkur.“

Hverjir eru Massive Attack?

-Massive Attack hófu að semja tónlist árið 1988 og var það tvíeykið Robert „3D“ Del Naja og Grant „Daddy G“ Marshall sem stofnuðu sveitina saman. Fyrsta plata þeirra, Blue Lines, kom út árið 1991 og hlaut einróma lof gagnrýnenda, eins og flestar aðrar plötur sem tvíeykið hefur gefið út. Frægasta lag Massive Attack, Teardrop, kom út árið 1998 á plötunni Mezzanine og var sú plata, ásamt Blue Lines, valin ein af 500 bestu plötum allra tíma af tónlistartímaritinu Rolling Stone.

-Teardrop er án ef vinsælasta lag sveitarinnar og naut hún liðsinnis söngkonunnar Elizabeth Fraser í laginu. Voru þeir félagar þá búnir að hafa samband við Madonnu um að ljá laginu rödd sína en Fraser hafði vinninginn og Madonna varð fyrir vonbrigðum þar sem hún ku hafa verið orðin spennt fyrir að syngja lagið. Lagið minnir Fraser alltaf á tónlistarmanninn og góðan vin hennar, Jeff Buckley, sem dó á sama tíma og hún var syngja lagið í hljóðveri árið 1997.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.