Lífið

Syngur á skemmtiferðaskipi Disney

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Greta Salóme Stefánsdóttir mun búa á skemmtiferðarskipinu Disney Dream á næstunni.
Greta Salóme Stefánsdóttir mun búa á skemmtiferðarskipinu Disney Dream á næstunni. Vísir/Valli
„Þetta er samningur við Disney um að vera svokallað „solo act“ á Disney Dream-skipinu þeirra. Ég er ótrúlega spennt og það er þvílíkur heiður fyrir mig að fá að koma og spila mitt eigið efni,“ segir Greta Salóme Stefánsdóttir sem hefur gert samning við Disney.

Hún kemur fram á einu stærsta skemmtiferðaskipi Disney-fyrirtækisins sem kallast Disney Dream en það tekur um 4.000 farþega og siglir á milli Flórída og Bahama-eyja.

„Þetta hefur í raun staðið til síðan í apríl. Ég er hjá bandarískri umboðsskrifstofu, Mike Moloney Entertainment, sem er í Las Vegas og þeir sendu Disney efnið mitt og í kjölfarið fékk ég samning upp á tvo mánuði,“ segir Greta Salóme spurð út í ferlið.

Disney Dream-skipið er engin Akraborg og er eitt stærsta skip Disney.Vísir/Getty
Hún mun spila og syngja sitt eigið efni tvisvar á dag í hálftíma í senn víðs vegar um skipið. „Skipið siglir tvær siglingar í viku og ég skemmti sex daga vikunnar, þannig að þetta er mjög þægilegur vinnutími. Það er líka svakaleg rækt um borð þannig að maður ætti að geta haldið sér í formi,“ bætir Greta Salóme við létt í lundu, enda mikil íþróttamanneskja.

Aðspurð um hvort samningurinn gefi ekki einnig vel í aðra hönd segir Greta Salóme; „Þetta eru góðar tekjur sem maður getur ekki sagt nei við. Þetta er líka gott á ferilskrána.“

Fyrir utan Disney er hún með mörg járn í eldinum. „Ég fer út í júlí og kem heim um miðjan september. Ég er líka að spila með Sinfóníuhljómsveit Íslands og vinna í nýju efni, þannig að það er nóg framundan.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×