Handbolti

Úrslit deildarbikarsins í dag

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Kári Kristján verður í eldlínunni gegn Val
Kári Kristján verður í eldlínunni gegn Val vísir/stefán
Úrslitaleikir deildarbikarsins í handbolta, Flugfélags Íslands bikarinn, verða leiknir í Strandgötunni í Hafnarfirði í dag. Úrslitaleikur kvenna hefst klukkan 13 og úrslitaleikur karla klukkan 15.

Í kvennaflokki mætast Fram og Stjarnan. Fram vann öruggan sigur á ÍBV í undanúrslitum í gær og Stjarnan sem á titil að verja marði Gróttu í hörkuleik.

Fram er í efsta sæti Olís deildar kvenna með fullt hús stiga en Stjarnan er í þriðja sæti með 16 stig eftir tíu umferðir.

Fram og Stjarnan mættust 18. október í deildinni og þá vann Fram öruggan 37-30 sigur.

Valur og Afturelding mætast í úrslitaleiknum í karlaflokki. Valur lagði FH í tvíframlengdum leik í gær og Afturelding vann öruggan sigur á ÍR.

Valur er á toppi Olís deildar karla og Afturelding er í þriðja sæti, tveimur stigum á eftir.

Afturelding vann Val þegar liðin mættust í annarri umferð deildarkeppninnar í september en liðin skildu svo jöfn í Mosfellsbæ 17. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×