Lífið

Eyddi 86 klukkustundum í hrekkjavökubúninginn

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
mynd/úr einkasafni
„Ég hélt að gamni vinnudagbók um verkefnið. Þetta voru 86 vinnustundir á fjörutíu dögum. Ég á örugglega aldrei eftir að gera þetta aftur. Þegar fólk spyr mig hvað ég ætla að verða á næsta ári segi ég bara: Ekkert. Ég verð bara heima,“ segir Eðvarð Arnór Sigurðsson, eða Addó eins og hann er kallaður, glaður í bragði.

Addó vakti gríðarlega athygli á nýafstaðinni hrekkjavöku sem ofurmennið Hulk. Búninginn bjó hann til sjálfur og notaði til þess svokallaða „papercraft“-aðferð.

„Ég ætlaði að gera Hulk fyrir nokkrum árum síðan en svo varð ekkert úr því. Svo fann ég aðferð á netinu sem heitir „papercraft“. Hún felst í því að maður fletur út þrívíddarkaraktera úr tölvuleikjum og þeir slitnir í sundur svo hægt sé að prenta þá út á pappír. Síðan klippir maður þá út og límir saman og útkoman er þrívíddarmynd. Ég hef unnið með þessa aðferð en oftast gert eitthvað lítið eins og kanínu og hunda með dóttur minni. Svo sá ég þennan risastóra Hulk á internetinu og hugsaði með mér að þetta gæti verið búningur. Svo fannst mér þetta helst til mikið brjálæði en ákvað loks að slá til þegar ég komst að því að það yrði stórt hrekkjavökupartí í vinnunni,“ segir Addó. Erfiðið skilaði sér og hlaut hann verðlaun í teitinu fyrir frumlegasta búninginn.

Addó, hálfnaður með verkið.
„Vinningurinn var út að borða fyrir tvo á Grillmarkaðinum og ég ætla klárlega að bjóða konunni minni,“ segir Addó en gerð búningsins tók á.

„Ég þurfti að gera andlitið þrisvar sinnum því það eyðilagðist. Þetta var alveg nóg vinna og á köflum var ég búinn að fá nóg. En mig langaði að prufa þetta og klára þetta. Auðvitað varð ég stundum pirraður og ég held að konan mín myndi segja að ég hafi ekki hugsað um neitt annað á þessu tímabili,“ segir Addó.

Búningurinn er búinn til úr 380 A4 blöðum, einangrunarfroðu og trefjaglersplasti. Þó búningurinn sé frekar léttur var heitt að vera í honum að sögn Addós.

„Þetta er yfirþyrmandi búningur – hann er svo stór. Það var mjög heitt að vera í honum og það lak af mér svitinn. Ég þyrfti eiginlega að finna loftkælingarkerfi inní hann,“ segir hann og hlær og bætir síðan við að búningurinn sé eitthvað um 2,15 metrar á hæð.

Þó Addó eigi eflaust ekki eftir að búa til búning með þessari aðferð aftur mælir hann með þessu.

„Það er alltof oft sem fólk finnur bara eitthvað í skápnum til að vera í á hrekkjavöku. Ég mæli með því að fólk geri eitthvað skemmtilegt því einhvern tímann á maður að gera eitthvað svona „full retard.“ Go big or go home.“ 

Hulk bar höfuð og herðar yfir aðra í hrekkjavökupartíinu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×