Lífið

Öllu tjaldað til á Dalvík

Hér sjáum við hópinn sem kemur fram á stórtónleikum á Dalvík á laugardagskvöldið.
Hér sjáum við hópinn sem kemur fram á stórtónleikum á Dalvík á laugardagskvöldið. fréttablaðið/daníel
„Þetta er nokkurs konar framhald af ótrúlega vel heppnuðum tónleikum í fyrra, það gekk svo vel og því ákveðið að gera þetta aftur,“ segir tónlistarmaðurinn Friðrik Ómar Hjörleifsson en hann kemur fram á og skipuleggur heljarmikla tónleika sem fram fara á laugardagskvöldið á Dalvík.

„Það voru um 30 þúsund manns þarna í fyrra, ég lofa mjög flottu sjói,“ segir Friðrik Ómar.

Hann hefur staðið fyrir afskaplega vel heppnuðum sýningum, sem hafa verið til heiðurs hljómsveitum og tónlistarmönnum á borð við Bee Gees, Elvis Presley, Freddie Mercury og Meatloaf svo að fátt eitt sé nefnt og á tónleikunum verða þekktustu og vinsælustu lögin úr þessum sýningum flutt af miklum sönghetjum.

Eyþór Ingi Gunnlaugsson, Matthías Matthíasson, Dagur Sigurðsson, Stefán Jakobsson, Pétur Örn Guðmundsson, Eiríkur Hauksson, Stefanía Svavarsdóttir, Erna Hrönn Ólafsdóttir, Heiða Ólafsdóttir, Regína Ósk Óskarsdóttir og Selma Björnsdóttir koma fram auk Friðriks Ómars. Þá verður á sviðinu tíu manna hljómsveit skipuð frábærum hljóðfæraleikurum.

„Þetta verður allt saman frítt í boði Samherja og það verður öllu tjaldað til svo að ekki sé meira sagt,“ segir Friðrik Ómar.

Risahljóðkerfi, stærsta útisvið landsins, stærsti sjónvarpsskjár landsins sem er um 50 fermetrar og allur ljósabúnaður sem Exton býður upp á verður notað til þess að gera tónleikana sem flottasta.

„Það er svo gaman að fá svona verkefni, þetta verða lílkega stærstu tónleikar sem haldnir hafa verið á Dalvík, ég get ekki beðið,“ segir Friðrik Ómar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.