Stórsveitin Faith No More stefnir á útgáfu breiðskífu á næsta ári en þetta kom fram í viðtali Rolling Stone við bassaleikarann Bill Gould. Platan á að koma út í apríl á næsta ári en hefur ekki enn fengið nafn og áætlar Faith No More að fara í tónleikaferð til að kynna plötuna. Bill Gould sagði að vinnan við plötuna væri búin að standa yfir í um það bil eitt og hálft ár en hefði gengið nokkuð hægt enda búa allir hljómsveitarmeðlimir í sitthvorri borginni. Faith No More hættu árið 1998 en komu saman aftur árið 2009 og hafa haldið reglulega tónleika síðan þá. Þeir hafa hinsvegar ekki gefið út plötu síðan að „Album of the Year“ kom út árið 1997. Þeir eru þó þegar búnir að ákveða fyrstu smáskífuna og er það við lagið „Motherfucker“ en smáskífa með því lagi kemur í takmörkuðu upplagi í verslanir þann 28.nóvember.
Meðlimir Royal Blood segjast enn vera að klóra sér í hausnum yfir því að fyrsta breiðskífa þeirra komst á topp breska vinsældarlistans. Mike Kerr, söngvari sveitarinnar segir að þeir hafi aldrei búist við því að ná vinsældum og þeir séu ekki alveg vissir um hvernig þetta gerðist allt saman hjá þeim.

Nú hefur verið staðfest að Radiohead séu að fara að vinna að næstu plötu sinni í september en trommarinn Phil Selway hefur gefið það út að nú sé rétti tíminn til að byrja á plötunni án þess að hafa hugmynd um hvernig hún muni hljóma. Meðlimir Radiohead hafa verið uppteknir af eigin verkefnum síðustu misseri en hafa nú sammælst um að það sé kominn tími á nýja Radiohead plötu.
Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves hefur nú tilkynnt um fleiri hljómsveitir sem koma fram á hátíðinni en óhætt er að fullyrða að dagskrá hátíðarinnar hefur sjaldan verið glæsilegri. Á meðal þeirra hljómsveita sem var bætt við dagskránna í gær má nefna Ásgeir, Perfect Pussy, Ghostigital, Halleluwah, Himbrimi og fleiri og fleiri. En miðasala á Iceland Airwaves er enn í fullum gangi.