Sport

Mættu ekki í tvo leiki í Neskaupstað - fá 160 þúsund króna sekt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þróttarar úr Neskaupstað fengu ekki mikla keppni í kvöld.
Þróttarar úr Neskaupstað fengu ekki mikla keppni í kvöld. Mynd/throtturnesblak.123.is
Karlalið Aftureldingar í blaki átti að spila tvo leiki við Þrótt í Neskaupstað um helgina í Mikas-deild karla í blaki en mætti ekki í leikina samkvæmt frétt á heimasíðu blakdeildar Þróttar Nes.

Fyrri leikurinn átti að fara fram klukkan átta í kvöld en seinni leikurinn átti síðan að vera á morgun. Liðsmenn Aftureldingar skrópuðu í kvöld og mæta ekki heldur í leikinn á morgun samkvæmt þeim upplýsingum sem Þróttarar fengu frá Aftureldingu.

„Afturelding sá sér ekki fært að koma austur að sökum manneklu. Afar sorglegt þegar lið mæta ekki til leiks en Afturelding hefur átt erfitt með að manna meistaraflokksliðið eftir brotthvarf leikmanna úr liðinu," segir í frétt á heimasíðu blakdeildar Þróttar úr Neskaupsstað.

Afturelding þarf væntanlega að borga samtals 160 þúsund krónur í sekt vegna þessa tvöfalda skróps eða 80 þúsund fyrir hvorn leik.

Þróttur N er í þriðja sæti deildarinnar á eftir HK og Stjörnunni en Afturelding situr á botninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×