Gagnrýni

Óskapnaður, en líka flottheit

Jónas Sen skrifar
Hafdís Bjarnadóttir. „Tónleikarnir byrjuðu ekki vel, en tvö tónverk eftir Hafdísi Bjarnadóttur björguðu þeim.“
Hafdís Bjarnadóttir. „Tónleikarnir byrjuðu ekki vel, en tvö tónverk eftir Hafdísi Bjarnadóttur björguðu þeim.“ Vísir/GVA
Tónlist:

Sláturtíð í Hafnarhúsi

S.L.Á.T.U.R.

Upphafstónleikar Sláturtíðar í Listasafni Reykjavíkur fimmtudaginn 9. október.



Hvað er að vera listrænt ágengur? Í tónlistarlífinu hefur um nokkurt skeið starfað hópur tónlistarfólks sem kallar sig SLÁTUR. Nafnið stendur fyrir Samtök listrænt ágengra tónsmiða umhverfis Reykjavík. Væntanlega þýðir það að tónsmiðirnir eru ágengir, þ.e. djarfir. Þeir dirfast að bera á torg verk sem falla seint í kramið hjá þorra almennings. Það er frábært að til sé slíkur hópur. Án tilrauna þróast tónlistarlífið ekki neitt. En tilraunir heppnast auðvitað ekki alltaf.



SLÁTUR skipuleggur litla hátíð á hverju hausti þar sem flutt eru nýstárleg tónverk. Að þessu sinni er hátíðin haldin í Listasafni Reykjavíkur. Upphafstónleikarnir voru á fimmtudagskvöldið og var fyrst sýnd stutt kvikmynd með tónlist undir. Myndin hét Travelling Light og var eftir Kristine Tjögersen, en hún samdi einnig tónlistina. Það var þunnur þrettándi. Kvikmyndin var tekin út um glugga á lest sem var lengst af að fara um göng. Ekki ber mikið fyrir augu á slíkum stundum, ljós fara fram hjá með reglulegu millibili, skilti, o.s.frv. Þetta var túlkað með tónum á stangli, sem sköpuðu einhæfa, langdregna hljóðmynd. Ansi var það leiðinlegt.



Á tónleikum SLÁTURS hefur svona nokkuð verið áberandi í gegnum tíðina. Maður sér einhvers konar mynstur á vegg, venjulega einfalda tölvugrafík, og hópur hljóðfæraleikara reynir að breyta henni í tóna. Það er sjaldan áhugavert. Eiginlega er þetta orðið eins og gamall brandari sem er löngu hættur að vera fyndinn. Ekki er hægt að kalla þetta tilraun lengur, því hún hefur svo oft verið framkvæmd. Það er frekar að þetta sé orðið að þráhyggju.



Verk eftir Guðmund Stein Gunnarsson var þessu marki brennt. Þríeyki frá Noregi, Toen fil og Klafferi, sat við borð sem á var fartölva. Þremenningarnir horfðu einbeittir á skjáinn og spiluðu eftir fyrirmælum sem þar greinilega birtust. Nú sáu tónleikagestir ekki það sem var í tölvunni, ólíkt því sem gjarnan hefur tíðkast á fyrri tónleikum, þegar tölvuskjánum hefur verið brugðið upp á vegg. En það sem hér heyrðist var ósköp svipað og maður hefur áður upplifað. Engin spennandi framvinda var merkjanleg, engin áhugaverð áferð, engar andstæður, engir litir. Tónlistin var fyrst og fremst óskapnaður sem risti ekki djúpt.



Mun betri voru tvær tónsmíðar eftir Hafdísi Bjarnadóttur, Sólheimajökull og Dettifoss. Þar blandaðist hljóðfæraleikur Norðmannanna við upptökur frá göngutúr um jökulinn og við fossinn. Þetta var skemmtilegt. Hljóðfæraleikurinn var fíngerður og vandaður, tónavefurinn fagurlega ofinn. Hann féll furðuvel að grófum hljóðunum úr hátölurunum. Þetta tvennt, viðkvæmur hljóðfæraleikurinn og groddaleg upptakan, mynduðu flotta dramatíska árekstra sem voru krassandi. Þarna var tilraun sem auðheyrilega virkaði. 



Niðurstaða: Tónleikarnir byrjuðu ekki vel, en tvö tónverk eftir Hafdísi Bjarnadóttur björguðu þeim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×