Veiði

Hraunvötnin gefa stóra urriða

Karl Lúðvíksson skrifar
Mynd: Tómas Skúlasson
Hraunvötnin og Grænavatn í Veiðivötnum gefa oft stóra urriða og venjulega eru þetta vötnin sem gefa stærstu urriðana á hverju ári.

Grænavatn á enn sem komið er stærsta fisk sumarsins sem er 14 pund en í magni koma flestir stóru fiskarnir upp í Hraunvötnum.  Þetta sést vel á veiðitölum en 111 urriðar veiddust í Hraunvötnum liðna viku og 21 urriði í Grænavatni.  Tómas Skúlasson var við veiðar ásamt Erni félaga sínum í Hraunvötnum og komu þeir í bæinn í gær eftir vel heppnaða ferð.  Tómas er þekktur fyrir að setja í stórfiska, hvort heldur sem er lax eða silungur, en nýlega sýndum við myndir af tröllvöxnum bleikjum sem hann veiddi ásamt hópi erlendra veiðimanna á Arnarvatnsheiði.   Í Hraunsvötnum veiddi hann meðal annars þessa tvo flottu urriða á flugu sem hann kallar Svartann Homma og er nobbler afbrigði en þær flugur hafa verið mjög góðar í vötnunum í hinum ýmsu afbrigðum.  Þessi fluga er afskaplega veiðileg að sjá og nokkuð víst að einhverjir sem eiga leið upp í Veiðivötn eiga eftir að hnýta eftir flugunni sem er ein af myndunum sem fylgir þessari frétt.

Endilega deilið með okkur veiðifréttum og veiðimyndum frá ykkar veiði í sumar.  Þið getið sent okkur póst á kalli@365.is og ekki gleyma að láta fullt nafn og símanúmer fylgja póstinum.






×