Körfubolti

Kani í Vesturbæinn með síðustu skipunum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Styrkur Watt ætti að hjálpa KR í frákastabaráttunni.
Styrkur Watt ætti að hjálpa KR í frákastabaráttunni. Vísir/Getty
Körfuknattleiksdeild KR gekk frá samningi við Bandaríkjamanninn Demond Watt áður en lokað var fyrir félagaskipti hér á landi á miðnætti á föstudaginn. Tveggja metra maðurinn Watt mun spila með KR út leiktíðina. Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, vonast til að Watt auki styrk KR-inga í baráttunni undir körfunni.

„Hann spilaði í Finnlandi í fyrra og þar áður í Svíþjóð,“ segir Finnur Freyr. Hann segir Brynjar Þór Björnsson, Helga Má Magnússon og Pavel Ermolinskij alla hafa spilað gegn honum í sænsku úrvalsdeildinni. „Ég fékk fín meðmæli með honum.“

Watt spilaði með háskólaliði Texas A&M Corpus Christi áður en hann hélt í Norðurlandatúrinn sem nú stendur yfir. Hann er væntanlegur til landsins á fimmtudag og mun spila sinn fyrsta leik með KR gegn KFÍ á föstudag.

„Það var ekkert annað í myndinni en að fá Kana,“ segir Finnur um vinnu KR-inga undanfarnar vikur í Kanaleitinni.

Þeir svörtu og hvítu hafi náð að ganga frá sínum málum vel fyrir lok gluggans þótt ekkert hafi frést af félagaskiptunum fyrr en nú. Finnur segir óvíst hvort Watt komist í byrjunarliðið. Hann gefi ekkert upp um það. Magni Hafsteinsson hafi staðið sig vel undir körfunni að undanförnu.

„Við erum með það öflugan hóp að erfitt er að segja hver byrjar hverju sinni.“

KR-ingar ákváðu að láta Bandaríkjamanninn Terry Leake fara í síðustu viku. Þrátt fyrir tíðindin tók hann þátt í naumum sigri KR á Stjörnunni í síðustu viku. Hann hélt af landi brott á föstudaginn.


Tengdar fréttir

KR-ingar láta Leake fara

Vesturbæjarliðið samdi við Leake í kringum áramótin en hafa nú mánuði síðar ákveðið að slíta samstarfinu. Þeir svörtu og hvítu eru í leit að stærri manni í baráttuna undir körfunni.

KR heldur tryggð við Kanann

Körfuknattleiksdeild KR hefur samið við Terry Leake og mun hann klára tímabilið með liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×