Lífið

Volvo-áhugamenn á áramótarúnt

Ragnar er einn af stofnendum og formaður Volvoklúbbs Íslands.
Ragnar er einn af stofnendum og formaður Volvoklúbbs Íslands. Vísir/Ernir
„Fyrstu kynni mín af Volvo eru þegar ég var lítill krakki og afi átti Volvo-bíl. Þá voru þetta náttúrulega bestu bílarnir,“ segir Ragnar Þór Reynisson, formaður Volvoklúbbs Íslands, glaður í bragði.

Á gamlársdag hyggst Volvoklúbburinn halda í áramótarúnt. Lagt verður af stað frá Perlunni, rúntað niður í bæ og endað á bílaplani Ikea.

Klúbburinn var stofnaður í fyrra og er Ragnar einn af stofnendum hans. „Markmið klúbbsins er að skapa og stuðla að vettvangi fyrir áhugamenn um Volvo-bíla, hvort sem þeir eru nýir eða gamlir.“ En hátt í 120 manns eru skráðir í klúbbinn.

„Þetta tengist minni vinnu þar sem ég sé að það er svona krónísk della hjá mönnum sem hafa átt Volvo-bíla í mörg ár og eru stoltir af sínum bílum og geta sagt endalausar sögur,“ segir Ragnar en klúbburinn hefur meðal annars staðið fyrir vor- og sumarrúnti sem góð þátttaka var í að hans sögn.

Ekki er nauðsynlegt að vera skráður félagi til þess að taka þátt í áramótarúntinum, eina skilyrðið er að aka Volvo-bifreið.

„Þessi rúntur er ekkert bara fyrir gömlu bílana heldur bara alla. Hann er hugsaður fyrir þá sem hafa áhuga á Volvo-bílum,“ segir Ragnar.

Áramótarúntur Volvoklúbbsins hefst klukkan tvö á neðra plani Perlunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×