Lífið

Gaf Mike Leigh eina eintakið sitt af Óróa

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Ingibjörg var hæstánægð með að hitta Mike Leigh.
Ingibjörg var hæstánægð með að hitta Mike Leigh. myndir/úr einkasafni
„Það vildi svo vel til að ég var með eintak af Óróa í bílnum sem ég lét hann hafa eftir að hafa sagt honum örlítið frá myndinni,“ segir leikkonan og rithöfundurinn Ingibjörg Reynisdóttir.

Hún var svo heppin að hitta á virta leikstjórann Mike Leigh í Háskóla Íslands í dag þar sem hann var með meistaraspjall sem er hluti af kvikmyndahátíðinni RIFF. Hún gaf honum eina eintakið sem hún átti af kvikmyndinni Óróa, sem heitir Jitters á ensku, en myndin er byggð á bókum Ingibjargar, Strákarnir með strípurnar og Rótleysi, rokk og rómantík.

„Ég lánaði vini mínum þetta eintak um daginn og var því með það í bílnum. Ég var að leita að myndinni í verslunum um daginn og fann ekkert eintak. Ég vona að framleiðandinn eigi einhver á lager en annars erum við að tala um lúxusvandamál ef diskurinn er uppseldur,“ segir Ingibjörg glöð í bragði. Hún ber Mike góða söguna en leikstjórinn er hvað þekktastur fyrir kvikmyndirnar Secrets & Lies, Vera Drake og Naked.

„Mike var mjög viðkunnanlegur og hlýr. Hann þakkaði kærlega fyrir diskinn, virti hann fyrir sér og spurði hver enski titillinn væri. Vonandi gefur hann sér tíma til að horfa á myndina.“

Ingibjörg hefur í nægu að snúast þessa dagana en seinna í mánuðinum kemur út bók hennar Rogastanz sem byggð er á fólki sem hún þekkti í Danmörku og lifir óhefðbundnu lífi. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.