Körfubolti

Hversu lengi þarf Einar að bíða?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
99 deildarsigrar. Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur.
99 deildarsigrar. Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur. Fréttablaðið/Vilhelm
Þrír leikir fara fram í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld og þar á meðal er stórleikur Njarðvíkur og Grindavíkur í Ljónagryfjunni. Þetta er fyrsti leikur bikarmeistara Grindavíkur eftir sigurinn í Höllinni um síðustu helgi og með sigri gulltryggja þeir sig í hóp þriggja efstu liðanna.

Njarðvíkingar væru þá komnir sex stigum á eftir Grindavík þegar sex stig eru eftir í pottinum og væru auk þess búnir að tapa báðum innbyrðisleikjunum á móti nágrönnunum sínum. Grindavík hefur unnið Njarðvík tvisvar sinnum því Grindavíkurliðið sló Njarðvík einnig út úr bikarnum. Hinir leikir kvöldsins eru: Þór Þ.-KR í Þorlákshöfn og KFÍ-ÍR á Ísafirði.

Njarðvíkingar hafa tapað tveimur síðustu leikjum sínum, á móti KR og Haukum, en næsti sigurleikur liðsins er hundraðasti sigur þjálfarans Einars Árna Jóhannssonar í úrvalsdeild karla. Þegar hundraðasti sigurinn dettur í hús þá verður Einar Árni tíundi þjálfarinn til að stýra liðum til sigurs í hundrað deildarleikjum en lið hans hafa til þessa unnið 99 af 160 leikjum í efstu deild.

Þrír starfandi þjálfarar í Dominos-deildinni eru meðlimir í hundrað sigra klúbbnum en það eru Benedikt Guðmundsson (Þór Þ.), Ingi Þór Steinþórsson (Snæfell) og Teitur Örlygsson (Stjarnan) sem er nýjasti meðlimurinn í klúbbnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×