Lífið

Fjölskylduhrollvekja

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Björn Hlynur Haraldsson og Gísli Örn Garðarson leika bræður í myndinni.
Björn Hlynur Haraldsson og Gísli Örn Garðarson leika bræður í myndinni. mynd/einkasafn
Nýr íslenskur sálfræðitryllir lítur dagsins ljós í sumar og ber kvikmyndin nafnið Grafir og bein. Það sem er athyglisvert er að hópurinn sem tengist myndinni er tengdur miklum fjölskylduböndum. „Það eru mikil tengsl á milli fólksins enda ekki hægt að gera svona mynd nema að mórallinn og tengslin séu góð,“ segir hinn 26 ára gamli Anton Sigurðsson, handritshöfundur og leikstjóri myndarinnar.

Aðalhlutverkin leika þau Nína Dögg Filippusdóttir og Björn Hlynur Haraldsson, þá leikur Gísli Örn Garðarsson einnig í myndinni. „Nína Dögg er gift Gísla Erni og svo er Björn Hlynur giftur Rakel Garðarsdóttur sem er systir Gísla Arnar. Tökumaður myndarinnar, Árni Filippusson er síðan bróðir Nínu Daggar,“ útskýrir Anton.

Nína Dögg Filippusdóttir og Björn Hlynur Haraldsson leika aðalhlutverkin í myndinni.mynd/einkasafn
Grafir og bein er fyrsta kvikmyndin sem Anton leikstýrir í fullri lengd. „Þrátt fyrir ungan aldur Antons hafði ég strax trú á honum og langaði strax að taka slaginn með honum. Hann á greinilega framtíðina fyrir sér sem kvikmyndaleikstjóri,“ segir Björn Hlynur Haraldsson um myndina. Mágarnir Björn Hlynur og Gísli Örn leika bræður í myndinni. „Við þurftum ekki að grafa djúpt til að finna það samband,“ bætir Björn Hlynur við.

Erlingur Jack Guðmundsson, eigandi Ogfilms, framleiddi myndina. „Þegar það eru ekki miklir peningar á milli handanna þá verður maður að treysta á fjölskylduböndin,“ segir Erlingur Jack, en hann og Björn Hlynur þekkjast vel í gegnum knattspyrnufélagið Þrótt.

Myndin er nánast tilbúin og gert er ráð fyrir að hún verði frumsýnd seinni hluta sumars. „Við erum að leggja lokahönd á klippið og þá er eftir frekari eftirvinnsla,“ segir Erlingur Jack um stöðu mála.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.