Lífið

Kvikmynd um verstu óperusöngkonu heims í bígerð

Bjarki Ármannsson skrifar
Meryl Streep mun fara með hlutverk Florence Foster Jenkins.
Meryl Streep mun fara með hlutverk Florence Foster Jenkins. Vísir/Getty
Leikkonan Meryl Streep hefur tekið að sér hlutverk Florence Foster Jenkins, bandarískrar óperusöngkonu sem vakti mikla athygli á fyrri hluta 20. aldar fyrir algjöran skort sinn á sönghæfileikum. Myndin mun víst bera heitið Florence og mun Hugh Grant koma til með að leika eiginmann Jenkins og umboðsmann.

Jenkins kom úr efnaðri fjölskyldu og nýtti auð sinn í að halda tónleika í hinum og þessum tónleikahöllum víðsvegar um Bandaríkin. Hún var rammfölsk og hélt ekki takti, en svo sannfærð var hún um sitt eigið ágæti að hún líkti sér við heimsþekktar söngkonur á borð við Frieda Hempel og Luis Tetrazzini og vísaði gagnrýni og hlátrasköllum á bug sem „öfundsýki.“

Þessi einstaka kona vakti smám saman áhuga áhorfenda og undir lok ferils hennar var fólk tilbúið að borga fúlgur fjár til að sjá hana á tónleikum, enda engu öðru líkt að hlýða á hana flytja heimsþekktar aríur á borð við Næturdrottningu Mozarts (sem heyra má í spilaranum hér fyrir neðan).

„Fólk segir kannski að ég geti ekki sungið, en enginn getur sagt að ég hafi ekki sungið,“ er haft eftir hinni mjög athyglisverðu Jenkins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×