Lífið

Veit upp á hár hvenær hún mun deyja

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/Skjáskot
„Ég ætla að deyja í svefnherberginu mínu, með móður mína og eiginmann minn mér við hlið. Ég mun fara friðsamlega með uppáhalds tónlistina mína spilaða í bakgrunninum,“ segir Brittany Maynard.

Læknar sögðu hinni 29 ára gömlu Brittany í apríl síðastliðnum að hún ætti einungis um sex mánuði eftir ólifaða. Skömmu áður greindist hún með heilakrabbamein þar sem hún var á ferðalagi með nýbökuðum eiginmanni sínum.

Sérfræðingar sem hún hefur rætt við eru sammála um að dauði hennar vegna krabbameinsins yrði hægur og sársaukafullur. Því hefur hún ákveðið að taka málin í sínar hendur. Þann fyrsta nóvember ætlar hún að taka eigið líf með lyfjum sem hún fékk hjá lækni.

Dagsetninguna ákvað hún útfrá því að eiginmaður hennar á afmæli 30. október og vill hún fagna deginum með honum, samkvæmt vef People.

Hún býr nú í Oregon, einu af fimm ríkjum Bandaríkjanna sem leyfa líknadráp og hún tekur þátt í kynningarátaki samtaka sem vilja auka réttindi fólks til að taka eigið líf.

„Ég get ekki lýst léttinum sem fylgir því að vita að ég þarf ekki að deyja eins og læknar segja að ég myndi fara vegna krabbameinsins.“

Í meðfylgjandi myndbandi má sjá Brittany segja frá ákvörðun sinni, en einnig er rætt við foreldra hennar og eiginmann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×