Lífið

Halda skrýtin og skemmtileg áramót

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Einar og Heiðrún hafa gaman af því að bjóða fólki úr ólíkum áttum í veislur.
Einar og Heiðrún hafa gaman af því að bjóða fólki úr ólíkum áttum í veislur. Mynd/Einkasafn
„Okkur fannst þetta bara eitthvað svo skrýtið og skemmtilegt. Við erum voða hrifin af því að bjóða fólki úr alls konar áttum hingað í veislur,“ segir Einar Óskar Sigurðsson sem ásamt kærustu sinni, Heiðrúnu Örnu Friðriksdóttur, heldur óvenjulega áramótaveislu í ár.

Einar og Heiðrún voru ekki komin með áramótaplön og ákváðu að bjóða ferðamönnum sem eyða gamlárskvöldi á Íslandi í áramótaveislu í gegnum vefsíðuna Couchsurfing.org.

„Við höfum einu sinni gist í gegnum Couchsurfing og tókum eftir því að fólk er oft að leita sér að einhverju að gera og ákváðum bara að bjóða svona „random“ fólki héðan og þaðan úr heiminum.“

Hann segist engar áhyggjur hafa af því að vandræðalegt verði að halda upp á áramótin með ókunnugu fólki. „Við hugsuðum þetta bara þannig að ef þetta verður eitthvað vandræðalegt þá verður sagan bara enn þá betri. Þetta getur ekki klikkað.“

Einar segir þau hafa fengið góðar viðtökur og að komnir séu sjö staðfestir gestir víðs vegar að úr heiminum, meðal annars frá Bandaríkjunum, Sviss og Svíþjóð.

„Það verður fólk frá öllum heimshornum í staupi og skaupi hjá okkur,“ segir Einar glaður í bragði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×