Handbolti

Frestar aðgerð út af úrslitakeppninni

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Harðjaxl. Það er sársaukafullt að fá gallsteinakast og ekki allir sem afþakka aðgerð.
Harðjaxl. Það er sársaukafullt að fá gallsteinakast og ekki allir sem afþakka aðgerð. fréttablaðið/valli
„Það á ekki af mér að ganga. Ég fékk heiftarlegt gallsteinakast á skírdag og átti að fara beint í aðgerð. Ég afþakkaði það pent,“ segir Hrafnhildur Skúladóttir, lykilleikmaður í liði Vals, en hún ætlar að reyna að harka af sér og klára úrslitakeppnina.

„Ég hef bara ekki tíma í þetta núna. Ég er að reyna að klára úrslitakeppnina. Ég var svo heppin að skurðlæknirinn var fótboltastelpa og hún skildi mig því vel.“

Hrafnhildur hefur þurft að breyta mataræði sínu út af veikindunum.

„Ég var hálf heiladauð til þess að byrja með. Smám saman hefur orkan komið og mér líður ágætlega. Það er ekkert hægt að meiða mig með því að kýla mig í magann. Ég er bjartsýn á að geta klárað mótið þó svo heilinn gangi á fitunni og þetta sé ekki það besta sem sé hægt að gera.“

Hrafnhildur hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir þetta tímabil og þessi mikli harðjaxl og afrekskona neitar að játa sig sigraða.

„Þetta er síðasta tímabilið mitt og ég vil ekki enda ferilinn svona. Þetta verður að hafast. Ég hefði aldrei fyrirgefið sjálfri mér ef ég hefði ekki látið á þetta reyna. Ég reyndi þá að minnsta kosti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×