Bakvörðurinn Thelma Björk Einarsdóttir hefur ákveðið að spila með Selfossi í Pepsi-deild kvenna í sumar en þetta kom fyrst fram á Sunnlenska.is.
Thelma Björk Einarsdóttir er annar Valsarinn sem gengur til liðs við Selfossliðið en áður hafði landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir ákveðið að spila með liðinu í sumar.
Thelma Björk er 23 ára gömul en missti af nær öllu tímabili í fyrra eftir að hafa slitið krossband í hné. Hún missti einnig af tímabilinu með skólaliði Kaliforníuháskólans en hún hefur verið þar við nám undanfarin tvö ár.
Thelma Björk er vinstri bakvörður að upplagi en getur líka spilað á vinstri kantinum enda þekkt fyrir að taka mikinn þátt í sóknarleik Valsliðsins.
Thelma Björk lék níu A-landsleiki frá 2010 til 2012 en síðasti landsleikur hennar var á Algarve-mótinu árið 2012. Hún hefur skorað 4 mörk í 66 leikjum með Val í Pepsi-deildinni.
