Veiði

Rjúpnalausir veiðimenn óska eftir rjúpum

Karl Lúðvíksson skrifar
Rjúpan er líklega eftirsóttasti jólamaturinn í ár
Rjúpan er líklega eftirsóttasti jólamaturinn í ár
Þeir veiðimenn sem fóru til fjalla og náðu ekki að skjóta rjúpur í jólamatinn eru í dag úrkula vonar um að það verði rjúpur í matinn þessi jól.

Það hefur oft verið þannig eftir að sölubann með rjúpnaafurðir var sett á að þeir sem hafa náð nokkrum umfram fuglum hafa gjarnan skipt á rjúpum og t.d. reyktum eða gröfnum laxi og það samkomulag hefur gagnast mörgum fyrir jólinn.  Sérstaklega var þetta heppilegt ef það vantaði einn eða tvo fugla en staðan er þannig í dag og það vantar mjög marga veiðimenn fugla til að hafa nóg í að minnsta kosti aðalrétt.  Þeir sem hafa sætt sig við lakann feng nota þær rjúpur sem þeir náðu í forrétt eða geyma þær sem þeir hafa náð í frystinum til næstu jóla og ná þá vonandi að bæta við svo nóg sé fyrir alla í aðalrétt.

Síðan er það sá hópur veiðimanna sem fékk ekkert og er alveg til í að vera með nokkrar rjúpur þó ekki væri nema í smá smakk fyrir mat eða í forrétt enda er lyngbragðið það sem kveikir oft í jólastemmningunni hjá fólki sem þekkir ekkert annað en rjúpur á jólunum.  Þessir veiðimenn eru í dag að leita til þeirra sem kannski eiga umfram fugla en staðan er bara þannig eftir rólega vertíð að fáir eiga umfram rjúpur.  Varaplanið eru skosku rjúpurnar sem eru bragðminni en ekkert síðri matur.  Það er líka hægt að stökkva á gæs sem nóg er til af eða stokkönd sem er virkilega góð villibráð að ógleymdu hreindýri sem er bæði með þetta gómsæta villibráðarbragð og kraftinn sem unnendur villibráðar sækjast í.

Það er þess vegna viðbúið að þeir sem náðu rjúpum fái "óvæntar" heimsóknir vina og vandamanna sem náðu ekki rjúpum í jólamatinn svona rétt eftir desert á aðfangadag og þessir gestir eru líklegir til að fara beint inní eldhús og kíkja í pottana.  






×