Lífið

Magnað mánudagskvöld hjá Bombay

Bombay Bicycle Club stóð svo sannarlega fyrir sínu og er meira en velkomið að koma aftur.
Bombay Bicycle Club stóð svo sannarlega fyrir sínu og er meira en velkomið að koma aftur. Vísir/getty
Bombay Bicycle Club

Silfurberg

Harpan

„Ég er svo spenntur að ég spila lögin alltof hratt,“ sagði Jack Steadman, söngvari bresku hljómsveitarinnar Bombay Bicycle Club, eftir nokkur lög, en hljómsveitin spilaði í annað sinn á Íslandi á mánudagskvöld.



Hann sagðist hafa hlakkað mikið til þess að koma og spila fyrir „uppáhaldsfólkið sitt“. Sveitin kom hingað fyrst árið 2010 þegar hún spilaði á Airwaves en árið 2012 kom Steadman einn til landsins og spilaði á órafmögnuðum tónleikum á Hressó. Það er viss skemmtun út af fyrir sig að fylgjast með Steadman, söngvaranum síbrosandi með einstöku röddina.

Tónleikarnir byrjuðu af krafti og fyrsta lagið, Overdone af nýjustu plötunni, So Long, See You Tomorrow, fór vel í salinn. Á eftir fylgdu þekktir slagarar eins og Shuffle og Lights Out Words Gone af plötunni Different Kind of Fix. Hápunktur tónleikanna var án efa þegar þeir tóku lögin Rinse Me Down og Ivy And Gold af plötunni Flaws sem kom út 2010. Steadman sagði að platan hefði einungis komið út í Bretlandi og á Íslandi og þakkaði hann sérstaklega útvarpsmönnum hér á landi sem komu henni í spilun.

Allt ætlaði að verða vitlaust þegar þeir óku lagið Evening/Morning af plötunni I Had Them Blues But I Shook Them Loose frá 2009. Tökulag kvöldsins, var eins og gítarleikarinn Ed Nash orðaði það „pretty darn funky“. Hann hafði hárrétt fyrir sér þegar þeir tóku lagið With Every Heartbeat með hinni sænsku Robyn í fönkaðri dansútgáfu, sem tókst hreint út sagt stórkostlega. Dansinn hélt áfram og lagið Feel af nýjustu plötunni fór vel í áhorfendur sem dönsuðu með.

Að lokum trylltu þeir salinn með laginu I's Always Like This og allir sungu og klöppuðu með. Þegar hljómsveitin gekk af sviði tók salurinn ekki vel í það og klappaði hana upp. Fyrstur á svið eftir uppklapp var trommarinn Suren de Saram sem barði bassatrommuna föstum takti og salurinn tók undir með honum. Eftir uppklapp tóku þeir What If og enduðu á Carry Me. Að lokum óskar undirrituð eftir að fá að sækja um starf syngjandi tambúrínustelpunnar þeirra, það virtist ekki vera leiðinlegt að vera hún.

Niðurstaða: Þessir tónleikar voru algjör veisla fyrir aðdáendur Bombay þar sem sveitin tók sín bestu lög af öllum plötunum. Ef eitthvað, þá má setja út á hljóðið í Silfurbergi, það mætti vera hærra í græjunum.

Adda Soffía Ingvarsdóttir





Fleiri fréttir

Sjá meira


×