Handbolti

Botnlið HK með yngsta liðið | ÍR það elsta

Guðmundur Mairnó Ingvarsson skrifar
Það er reynsla í liði ÍR
Það er reynsla í liði ÍR vísir/andri marinó
Botnlið HK með yngsta liðið | ÍR það elsta

HK sem situr á botni Olís deildar karla í handbolta er með yngsta liðið það sem af er móti en ÍR er með það elsta.

Patrekur Jóhannesson þjálfari Hauka benti á að hann sé með ungt lið í höndunum eftir 29-25 tap gegn Stjörnunni 27. nóvember. Patrekur notaði það þó ekki sem afsökun því hann benti á flest liðin í deildin eru með ung lið.

„Ég er nátturlega með ungt lið í höndunum sem er enn að læra, en það eru flest liðin í þessari deild ung svo það er ekki hægt að skýla sér á bakvið það," sagði Patrekur eftir leikinn gegn Stjörnunni við Vísi.

Þetta endurtók Patrekur eftir eins marks tap gegn Aftureldingu í síðustu umferðinni fyrir jól

„Ég nenni ekki að tala lengur um að menn séu ungir. Það eru ungir menn í öllum liðum. Menn þurfa að nýta næstu vikur og hugsa kannski meira um handbolta.“

Haukar eru með fjórða yngsta lið deildarinnar og er í fjórða neðsta sæti. HK er með yngsta liðið og í neðsta sæti en aldurinn ræður þó ekki röð allra liðanna í deildinni því Afturelding sem er næst yngsta lið deildarinnar er í þriðja sæti, aðeins tveimur stigum á eftir Val.

ÍR er með elsta lið deildarinnar og er í öðru sæti. Topplið Vals er með fimmta elsta lið deildarinnar.

Aldursröð liðanna (staða í deildinni)

1.    ÍR 25,6 ára (2)

2.    Akureyri 25,2 ára (6)

3.    ÍBV 23,5 ára (5)

4.    Stjarnan 23,4 ára (9)

5.    Valur 22,9 ára (1)

6.    FH 22,9 ára (4)

7.    Haukar 22,4 ára (7)

8.    Fram 22,4 ára (8)

9.    Afturelding 22,3 ára (3)

10.    HK 20,8 ára (10)

Hinn 33 ára gamli Kristinn Björgúlfsson hækkar meðalaldur bæði ÍR og Fram en hann skipti úr ÍR í Fram eftir fimm leiki.

Elsti leikmaðurinn er Magnús Sigmundsson 43 ára hjá FH en hann var Ágústi Elí Björgvinssyni til halds og traust í marki FH í tveimur leikjum í fjarveru Brynjars Darra Baldurssonar.

Yngsti leikmaðurinn er hinn 16 ára gamli Friðrik Hólm Jónsson sem lék einn leik fyrir ÍBV.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×