Lífið

Secret Solstice upphaf nýs hippatímabils?

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Jakob Frímann Magnússon er ánægður með hátíðina.
Jakob Frímann Magnússon er ánægður með hátíðina. Vísir/Valli
Tónlistarhátíðinni Secret Solstice, sem fram fór í Laugardalnum yfir helgina, lauk í gærkvöldi með glæsibrag en þetta er í fyrsta sinn sem hátíðin fer fram.

„Hátíðin hefur gengið eins og í fallegri, grænni og vistvænni sögu. Þetta er eina tónlistarhátíðin af þessari stærðargráðu sem ég hef komið á þar sem hreinlætis- og öryggisstig er jafn gott, því hér sést ekki rusl neins staðar og höfum við einnig sloppið við alla þá ofbeldishneigð sem fylgir oft svona hátíðum,” segir Jakob Frímann Magnússon, einn skipuleggjenda Secret Solstice.

„Ef þetta er upphaf nýs hippatímabils þá skulum við fagna því,“ bætir Jakob Frímann við.

Talið er að um átta til níu þúsund manns hafi sótt hátíðina þegar mest var.

Hátíðin náði hámarki þegar hljómsveitin Massive Attack steig á svið. Þá mátti sjá nokkur þekkt andlit í áhorfendaskaranum á borð leikarann og leikstjórann Baltasar Kormák, píratann Halldór Auðar Svansson, Sölva Blöndal í Quarashi og söngkonuna Ragnhildi Gísladóttur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×