Framkonur héldu sigurgöngu sinni áfram í Olís-deild kvenna í kvöld þegar Safamýrarstúlkur unnu sex marka sigur á FH í Framhúsinu, 21-15.
Fram er búið að vinna fyrstu níu leiki sína í deildinni í vetur og eru að sjálfsögðu í efsta sæti deildarinnar.
FH-konur náðu jafntefli við Val í síðasta leik og voru búnar að ná í þrjú stig í síðustu tveimur leikjum sínum. Þær náðu ekki að fylgja því eftir en sluppu við skell á móti sterku Framliði.
Guðrún Þóra Hálfdansdóttir, Elísabet Gunnarsdóttir og María Karlsdóttir voru markahæstar hjá Fram með fjögur mörk hver en liðið tryggði sig áfram í Evrópukeppninni með tveimur stórsigrum um síðustu helgi.
Ingibjörg Pálmadóttir, lykilmaður í liði FH, fékk rauða spjaldið í fyrri hálfleik og þá áttu FH-konur í erfiðleikum með Nadiu Ayelen Bordon sem varði 20 skot í Fram-markinu.
Fram - FH 21-15 (12-8)
Mörk Fram: Guðrún Þóra Hálfdansdóttir 4, Elísabet Gunnarsdóttir 4, María Karlsdóttir 4, Ásta Birna Gunnarsdóttir 3, Sigurbjörg Jóhannsdóttir 3, Steinunn Björnsdóttir 2, Elva Þóra Arnarsdóttir 1.
Mörk FH: Aníta Mjöll Ægisdóttir 6, Rebekka Guðmundsdóttir 2, Ingibjörg Pálmadóttir 2, Heiðdís Rún Guðmundsdóttir 1, Steinunn Snorradóttir 1, Birna Íris Helgadóttir 1, Sara Kristjánsdóttir 1, Elín Ósk Jóhannsdóttir 1.
