Handbolti

Fylkir og HK náðu í sín fyrstu stig

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Thea Imani átti góðan leik fyrir Fylki í kvöld.
Thea Imani átti góðan leik fyrir Fylki í kvöld. Vísir/Valli
Fimm leikir fóru fram í 2. umferð Olís-deildar kvenna í kvöld.

Grótta vann risasigur á Stjörnunni í Mýrinni með 28 mörkum gegn 14 eins og greint var frá á Vísi fyrr í kvöld.

Gróttukonur eru með fullt hús stiga eftir fyrstu tvær umferðirnar, líkt og ÍBV sem vann Val fyrr í kvöld, og Fram sem vann sigur á KA/Þór í gær.

Fylkiskonur unnu góðan sigur á Haukum með fimm marka mun, 27-22, eftir að Hafnarfjarðarliðið hafði verið yfir í hálfleik, 12-13. Bæði lið eru með tvö stig.

Thea Imani Sturludóttir var markahæst í liði Fylkis með sex mörk, en Díana Sigmarsdóttir og Sigrún Birna Arnardóttir komu næstar með fimm mörk hvor. Karen Helga Díönudóttir skoraði mest Haukakvenna, eða fimm mörk.

Þá vann HK öruggan tólf marka sigur, 29-17, á ÍR í Digranesinu og náði þar með í sín fyrstu stig.

Emma Havin Sardardóttir skoraði sex mörk fyrir HK og þær Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir og Fanney Þóra Þórsdóttir fimm mörk hvor. Sigrún Ása Steingrímsdóttir skoraði sex mörk fyrir ÍR-inga sem eru enn án stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×