Bakþankar

Ég er föst í amerískri klisjumynd

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Ég er ein af þeim sem verða alltaf mjög meyrir á gamlárskvöld. Fyllist óttablandinni eftirvæntingu þegar ég sé sekúnduvísana tifa í átt að nýju ári.

Ég stend nefnilega alltaf í þeirri trú að nýja árið geta ómögulega toppað það gamla. Hins vegar hefur það ekki verið raunin síðustu ár.

Nýliðna árið var þó óvenju viðburðaríkt. Ég hætti með barnsföður mínum, bjó hjá foreldrum mínum í fyrsta sinn í mörg ár, keypti mér íbúð, hætti í vinnu, byrjaði í nýrri vinnu, fór í fyrsta sinn til útlanda með vinkonum mínum, fann ástina og fékk að upplifa enn eitt undursamlega árið með dóttur minni. Þegar ég lít yfir farinn veg minnir þetta ár helst á ameríska bíómynd þar sem ein tíðindin reka önnur með svo ofsafengnum hraða að áhorfandinn trúir því ekki að þetta geti gerst í alvörunni.

Þetta var ár hinna stóru ákvarðana og sumar ákvarðanirnar var stórkostlega erfitt að taka – sem kemur sér illa fyrir átakafælnu mig.

Ég er alin upp af móður sem trúir á hið yfirnáttúrulega. Spáir í spil og bolla og spurði mig á hverjum einasta morgni hvað mig hefði dreymt þegar ég var ung. Réð svo í draumana af sinni einskæru snilld. Hún er mikill mannþekkjari og sagði mér eitt sinn að hún tryði því að fólk væri fætt með vissa eiginleika. Til dæmis mikið sjálfstraust. Sumir þyrftu hins vegar að vinna ötullega að því að trúa á sig sjálfa. Ég væri í þeim hópi.

Það er það sem stendur upp úr á árinu sem er að líða í mínum huga. Ég lærði að trúa á mig sjálfa. Þessi frasi er svo sem í takt við amerísku klisjumyndina sem líf mitt er búið að vera síðustu mánuði.

Ætli ég fari ekki heim á eftir, smelli „I Will Survive“ á fóninn og dansi á nærfötunum fyrir framan spegilinn með sjampóbrúsa í annarri og vínglas í hinni. Vakni síðan á morgun full af spenningi yfir því hvert bíómyndin leiði mig næst. Hún er svo langt frá því að vera búin.






×