Þvingun eða val? Ólafur Þ. Stephensen skrifar 11. janúar 2014 06:00 Undanfarið hefur verið fjallað talsvert um svokallaða ungbarnaleikskóla, sem taka við börnum um eins árs aldurinn eða jafnvel fyrr, strax eftir að fæðingarorlofi foreldra lýkur. Alþingi samþykkti fyrir jólin ályktun um að fela menntamálaráðherra, í samstarfi við Samband íslenzkra sveitarfélaga, að „meta kosti þess að bjóða leikskólavist strax og fæðingarorlofi lýkur.“ Þessi kostur hugnast augljóslega mörgum foreldrum. Til þessa hafa dagforeldrar brúað bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Það finnst líka mörgum góður kostur. Í umfjöllun Fréttablaðsins um síðustu helgi kom fram að í könnun, sem gerð var árið 2012, sagðist um helmingur foreldra telja vist hjá dagforeldrum góðan kost fyrir börn yngri en 18 mánaða. Þá voru yfir 90 prósent foreldra ánægð með þjónustu dagforeldra. Fréttablaðið ræddi fyrir viku við Sigrúnu Eddu Lövdahl, formann Barnsins, félags dagforeldra í Reykjavík. Félagið leggst gegn því að börnum verði boðin leikskólavist við eins árs aldur og óttast að stéttin leggist af. Sigrún Edda bendir á kosti dagvistar hjá dagforeldri: „Það er alltaf sama manneskjan með börnin, sem veitir þeim vellíðan og öryggi. Ef það eru endalausar mannabreytingar kemur það inn öryggisleysi hjá svona ungum börnum.“ Í blaðinu í gær kom hins vegar fram að gríðarleg ásókn væri í pláss á þeim fáu ungbarnaleikskólum sem nú eru starfandi. Umsóknir sem bárust ungbarnaleikskólum í Reykjavík voru um það bil fimmfalt fleiri en plássin sem voru í boði.Helga Kristjánsdóttir, leikskólastjóri á Sunnuhvoli í Garðabæ, útskýrði í umfjöllun blaðsins kosti ungbarnaleikskólanna: „Þar er faglegt starf og fleira starfsfólk [en hjá dagforeldrum]. Foreldrar þurfa því ekki að taka frí frá vinnu ef upp koma veikindi.“ Með öðrum orðum hefur dagvist hjá dagforeldri sína kosti og sína galla. Það sama á við um ungbarnaleikskólana. Sumir foreldrar velja fyrri kostinn, aðrir þann síðari. Er ekki bara alveg sjálfsagt að opinberir aðilar búi þannig um hnútana að fólk eigi val þarna á milli? Pistlahöfundurinn Pawel Bartoszekbendir á það í Fréttablaðinu í gær að þannig er það ekki í raun. Stjórnvöld virðast hafa ákveðið að beina fólki fremur í leikskólana. Leikskólapláss fyrir ársgamalt barn í átta tíma kostar að jafnaði um 190 þúsund krónur. Þar af greiða foreldrar í Reykjavík 26-30 þúsund krónur en skattgreiðendur afganginn. Verðlag á dagvist hjá dagforeldri er mismunandi. Niðurgreiðsla skattgreiðenda nemur um 40 þúsund krónum og í því dæmi sem Pawel tekur greiða foreldrarnir um 60 þúsund. Kostnaðurinn við þetta dagvistarúrræði er með öðrum orðum lægri, en með miklu lægri niðurgreiðslu beinir borgin fólki í leikskólana. Pawel segir réttilega að í þessu felist ekki raunverulegt val. Hvað ætti að vera því til fyrirstöðu að niðurgreiðslu sveitarfélagsins væri hagað þannig að fólk borgaði álíka mikið fyrir þjónustu dagforeldris og leikskóla? Það er eðlilegt að framboðið á plássum í ungbarnaleikskólum verði aukið, en er ekki líka eðlilegt að foreldrar eigi raunverulegt val á milli þessara kosta í stað þess að buddan þvingi þá til að taka þann sem er dýrari fyrir skattgreiðendur og ekkert endilega betri fyrir öll börn? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Það er ekki eitt, það er allt Diljá Matthíasardóttir Skoðun Hvað segir Morgunblaðið nú um stöðu litlu ríkjanna í ESB? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Píkudýrkun Kolbrún Bergþórsdóttir Skoðun Skilyrt loforð Þorsteinn Sæmundsson Skoðun Fortune 500 forstjórar heillaðir af „hybrid“. Hvað með nýju ríkisstjórnina? Tómas Hilmar Ragnarz Skoðun Tilraun til 40 ára býður skipbrot - allir þegja Björn Ólafsson Skoðun Upplýsingahernaður Helgi Hrafn Gunnarsson Skoðun Blekking Valkyrjanna Högni Elfar Gylfason Skoðun Ég vil fá boð í þessa veislu! Silja Björk Björnsdóttir Skoðun Munu næstu fjögur ár nægja? Kolbrún Halldórsdóttir Skoðun
Undanfarið hefur verið fjallað talsvert um svokallaða ungbarnaleikskóla, sem taka við börnum um eins árs aldurinn eða jafnvel fyrr, strax eftir að fæðingarorlofi foreldra lýkur. Alþingi samþykkti fyrir jólin ályktun um að fela menntamálaráðherra, í samstarfi við Samband íslenzkra sveitarfélaga, að „meta kosti þess að bjóða leikskólavist strax og fæðingarorlofi lýkur.“ Þessi kostur hugnast augljóslega mörgum foreldrum. Til þessa hafa dagforeldrar brúað bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Það finnst líka mörgum góður kostur. Í umfjöllun Fréttablaðsins um síðustu helgi kom fram að í könnun, sem gerð var árið 2012, sagðist um helmingur foreldra telja vist hjá dagforeldrum góðan kost fyrir börn yngri en 18 mánaða. Þá voru yfir 90 prósent foreldra ánægð með þjónustu dagforeldra. Fréttablaðið ræddi fyrir viku við Sigrúnu Eddu Lövdahl, formann Barnsins, félags dagforeldra í Reykjavík. Félagið leggst gegn því að börnum verði boðin leikskólavist við eins árs aldur og óttast að stéttin leggist af. Sigrún Edda bendir á kosti dagvistar hjá dagforeldri: „Það er alltaf sama manneskjan með börnin, sem veitir þeim vellíðan og öryggi. Ef það eru endalausar mannabreytingar kemur það inn öryggisleysi hjá svona ungum börnum.“ Í blaðinu í gær kom hins vegar fram að gríðarleg ásókn væri í pláss á þeim fáu ungbarnaleikskólum sem nú eru starfandi. Umsóknir sem bárust ungbarnaleikskólum í Reykjavík voru um það bil fimmfalt fleiri en plássin sem voru í boði.Helga Kristjánsdóttir, leikskólastjóri á Sunnuhvoli í Garðabæ, útskýrði í umfjöllun blaðsins kosti ungbarnaleikskólanna: „Þar er faglegt starf og fleira starfsfólk [en hjá dagforeldrum]. Foreldrar þurfa því ekki að taka frí frá vinnu ef upp koma veikindi.“ Með öðrum orðum hefur dagvist hjá dagforeldri sína kosti og sína galla. Það sama á við um ungbarnaleikskólana. Sumir foreldrar velja fyrri kostinn, aðrir þann síðari. Er ekki bara alveg sjálfsagt að opinberir aðilar búi þannig um hnútana að fólk eigi val þarna á milli? Pistlahöfundurinn Pawel Bartoszekbendir á það í Fréttablaðinu í gær að þannig er það ekki í raun. Stjórnvöld virðast hafa ákveðið að beina fólki fremur í leikskólana. Leikskólapláss fyrir ársgamalt barn í átta tíma kostar að jafnaði um 190 þúsund krónur. Þar af greiða foreldrar í Reykjavík 26-30 þúsund krónur en skattgreiðendur afganginn. Verðlag á dagvist hjá dagforeldri er mismunandi. Niðurgreiðsla skattgreiðenda nemur um 40 þúsund krónum og í því dæmi sem Pawel tekur greiða foreldrarnir um 60 þúsund. Kostnaðurinn við þetta dagvistarúrræði er með öðrum orðum lægri, en með miklu lægri niðurgreiðslu beinir borgin fólki í leikskólana. Pawel segir réttilega að í þessu felist ekki raunverulegt val. Hvað ætti að vera því til fyrirstöðu að niðurgreiðslu sveitarfélagsins væri hagað þannig að fólk borgaði álíka mikið fyrir þjónustu dagforeldris og leikskóla? Það er eðlilegt að framboðið á plássum í ungbarnaleikskólum verði aukið, en er ekki líka eðlilegt að foreldrar eigi raunverulegt val á milli þessara kosta í stað þess að buddan þvingi þá til að taka þann sem er dýrari fyrir skattgreiðendur og ekkert endilega betri fyrir öll börn?
Fortune 500 forstjórar heillaðir af „hybrid“. Hvað með nýju ríkisstjórnina? Tómas Hilmar Ragnarz Skoðun
Fortune 500 forstjórar heillaðir af „hybrid“. Hvað með nýju ríkisstjórnina? Tómas Hilmar Ragnarz Skoðun