Sport

Við sjáum fram á gott mót í Sotsjí

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
María Guðmundsdóttir, Sævar Birgisson, Einar Kristinn Kristgeirsson og Brynjar Jökull Guðmundsson keppa í Sotsjí.
María Guðmundsdóttir, Sævar Birgisson, Einar Kristinn Kristgeirsson og Brynjar Jökull Guðmundsson keppa í Sotsjí. fréttablaðið/vilhelm
Brynjar Jökull Guðmundsson, Einar Kristinn Kristgeirsson, María Guðmundsdóttir, Helga María Vilhjálmsdóttir og Sævar Birgisson verða fulltrúar Íslands á Vetrarólympíuleikunum sem hefjast í Sotsjí í Rússlandi hinn 7. febrúar. Þetta var tilkynnt í hófi sem haldið var í sendiráði Rússlands í Garðastræti í gær.

Þrjú fyrstnefndu keppa í svigi og stórsvigi líkt og Helga María sem einnig keppir í risasvigi.

„Þetta eru okkar fjórir bestu keppendur og hafa sýnt það á mótum bæði í haust og alveg fram í janúar,“ segir Fjalar Úlfarsson, landsliðsþjálfari í alpagreinum.

Hann sagði markmiðið hafa verið að koma fimm keppendum í alpagreinum á leikana og sá möguleiki sé enn fyrir hendi. Í dag komi í ljós hvort Ísland fái fimmta sætið. Fulltrúi Íslands bíður spenntur en Fjalar vildi ekki upplýsa hver sá væri.

„ÍSÍ kemur til með að tilkynna það ef af verður,“ segir Fjalar og bætir við að æfingar og keppni ytra undanfarnar vikur og mánuði hafi gengið mjög vel.

„Krakkarnir hafa verið að bæta sig og við teljum okkur vera að toppa á réttum tíma. Við sjáum fram á gott mót.“

Sævar keppir í skíðagöngu og verður fyrsti fulltrúi Íslands í greininni síðan á leikunum í Lillehammar árið 1994.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×