Sáttmálinn sem var rofinn Guðmundur Andri Thorsson skrifar 10. febrúar 2014 00:00 Við héldum að samfélagið væri sáttmáli. Við stóðum í þeirri trú að hóparnir í samfélaginu kæmu sér saman um tilteknar grundvallarreglur í samskiptum sínum og aðferðir við að semja um sanngjarna og skynsamlega dreifingu þeirra gæða sem til eru, og markmiðið væri að skapa réttlátt, opið, vítt, frjálslynt, skilvirkt og skemmtilegt samfélag þar sem ólíkir einstaklingar fá notið hæfileika sinna hver á sínu sviði. En þetta er náttúrlega ekkert þannig. Við búum í frekjusamfélagi.Launaskrið Þjóðarsáttin á sínum tíma – og kjarasamningar æ síðan – snerist um að afnema verðtryggingu á launum en halda henni á lánum. Víxlverkun kaupgjalds og verðlags var stöðvuð með því að hætta að hækka kaupið til jafns við hækkun verðlags. Verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur tóku að sér að semja um laun útlendinga og opinberra starfsmanna – sem eru nokkurn veginn eina fólkið sem fær greitt samkvæmt töxtum hér á landi. Eftir að hætt var að nota samtakamátt alþýðusamtaka og verkfallsvopnið var sett inn í skáp til þess að rykfalla þar var það eftirlátið atvinnurekendum á hverjum stað og einstaklingunum sem hjá þeim vinna hverju sinni, að semja um kaup og kjör. Við tók svokallað launaskrið. Það er að segja: hver og einn þarf að skríða eftir sínum launahækkunum, sé viðkomandi ekki í stöðu til að semja við sjálfa(n) sig, vini og félaga um þær. Mestu kauphækkanirnar fóru til þeirra sem voru í bestri aðstöðu til að semja um – eða hreinlega skammta sér – laun, og undir hælinn lagt hvernig sambandi verðmætasköpunar og launa var háttað hverju sinni; nema við vitum að því hærra sem við förum í flestum fyrirtækjum, þeim mun minni þörf er fyrir viðkomandi í starfsemi fyrirtækisins – minnst fyrir forstjórann. Ágætur bloggari, Andri Geir Arinbjarnarson, benti á það nýlega að launamunur sé að verða með mesta móti á Íslandi, í samanburði við önnur lönd. Lægstu laun eru hér um 214.000 krónur á mánuði en harðsæknustu forstjórarnir – þeir frekustu – eru sagðir komnir með um fimm milljónir á mánuði. Þetta hlutfall er 1:23 en nýlega var kosið um það í Sviss hvort eigi að lögleiða að munurinn á hæstu og lægstu launum skuli aldrei vera meiri en 1:12. Með aukinni stéttaskiptingu fáum við samfélag sem er óréttlátara en það sem fyrir var, óskilvirkara, óskynsamlegra – og leiðinlegra á alla lund. Ekki þarf að hafa mörg orð um skaðsemi þess að alast upp við fátækt en enginn hefur gott af því heldur að fá of mikinn auð of auðveldlega – og hvað þá að alast upp við mikið ríkidæmi þar sem ekkert þarf að hafa fyrir neinu. Slíkt er bara framleiðsla á frekjum og landeyðum.Hinn óstaðfesti sáttmáli En við héldum að hér væri einhvers konar lausbeislaður sáttmáli, ekki kannski beinlínis orðaður neins staðar og ekki bundinn í lagabókstaf, ekki einu sinni stjórnarskrá, og snerist um sameiginlegan skilning okkar sem búum hér og teljum okkur eina þjóð: að við ættum eitt og annað sameiginlegt, menningararf, tungumál, auðlindir í náttúru og hugviti – vissar hugmyndir um mannkosti og æskilega hegðun; vissa ósiði í arf og bresti, drykkjuósiði, vondan mat, mögnuð ljóð, þjóðtrú, jafnaðarmennsku, landlæga andúð á merkikertum og dálæti á sérvitringum. Æ oftar leitar á mann nagandi tilfinning um að einhvers staðar, einhvern tímann og einhvern veginn, hafi sáttmálinn verið rofinn – kannski í Stóru Bólu – og nýr hafi ekki verið gerður heldur ríki nú glundroði, þar sem hver keppist við að toga til sín sitt, með því að útmála hlutskipti sitt sem átakanlegast – en umfram allt: frekjurnar fái mest. Til að bærilegra sé að búa í samfélagi við aðra þarf að ríkja upp að vissu marki einhver slíkur ósagður skilningur – að sjálfsögðu með öllum fyrirvörum um skýlausan rétt hinna sérlunduðu til að skila sem allra flestum sérálitum í sem allra flestum málum. En meðal þess sem talið var íslensku samfélagi til tekna hér í eina tíð var að hér lá um hríð í loftinu viss hugmynd um jafnræði fólks, samgang ólíkra stétta (þannig var það á mínum bernskuslóðum þar sem iðnaðarmenn, verkafólk, listamenn, forstjórar og vísindamenn bjuggu í einni hrúgu); hér var stéttaflökt sem var svolítið skemmtilegt. Eftir því sem launamunurinn eykst hér verður slíkt erfiðara viðfangs, samfélagið verður niðurnjörvaðra og dýnamíkin hverfur úr því. Nú er svo komið að vel menntað fólk, í starfi hjá ríki eða sveitarfélögum, hefur dregist svo mjög aftur úr í launum og starfskjörum – heilbrigðisstarfsfólk, kennarar, slíkar stéttir – að hún verður sífellt þrásæknari sú tilfinning meðal þessa fólks, að of lengi hafi það verið blekkt. Of lengi hafi hvílt á herðum þess eins að halda verðbólgunni í skefjum og ríkissjóði réttum megin við núllið í rekstri sínum. Það hefur horft upp á skattalækkanir til hinna ríku, lækkun veiðigjalds til útgerðarmannanna, verðvernd stjórnvalda sem lýsir sér í því að hátt verð á matvælum og öðrum nauðsynjum er verndað en algjört tómlæti ríkir um rétt neytandans. Og svo framvegis. Þess vegna verða samningar svo erfiðir núna við opinbera starfsmenn á borð við kennara. Sáttmálinn óorðaði hefur verið rofinn. Og það var ekki þetta fólk sem rauf hann. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Biðin eftir leigubíl Elín Anna Gísladóttir Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun
Við héldum að samfélagið væri sáttmáli. Við stóðum í þeirri trú að hóparnir í samfélaginu kæmu sér saman um tilteknar grundvallarreglur í samskiptum sínum og aðferðir við að semja um sanngjarna og skynsamlega dreifingu þeirra gæða sem til eru, og markmiðið væri að skapa réttlátt, opið, vítt, frjálslynt, skilvirkt og skemmtilegt samfélag þar sem ólíkir einstaklingar fá notið hæfileika sinna hver á sínu sviði. En þetta er náttúrlega ekkert þannig. Við búum í frekjusamfélagi.Launaskrið Þjóðarsáttin á sínum tíma – og kjarasamningar æ síðan – snerist um að afnema verðtryggingu á launum en halda henni á lánum. Víxlverkun kaupgjalds og verðlags var stöðvuð með því að hætta að hækka kaupið til jafns við hækkun verðlags. Verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur tóku að sér að semja um laun útlendinga og opinberra starfsmanna – sem eru nokkurn veginn eina fólkið sem fær greitt samkvæmt töxtum hér á landi. Eftir að hætt var að nota samtakamátt alþýðusamtaka og verkfallsvopnið var sett inn í skáp til þess að rykfalla þar var það eftirlátið atvinnurekendum á hverjum stað og einstaklingunum sem hjá þeim vinna hverju sinni, að semja um kaup og kjör. Við tók svokallað launaskrið. Það er að segja: hver og einn þarf að skríða eftir sínum launahækkunum, sé viðkomandi ekki í stöðu til að semja við sjálfa(n) sig, vini og félaga um þær. Mestu kauphækkanirnar fóru til þeirra sem voru í bestri aðstöðu til að semja um – eða hreinlega skammta sér – laun, og undir hælinn lagt hvernig sambandi verðmætasköpunar og launa var háttað hverju sinni; nema við vitum að því hærra sem við förum í flestum fyrirtækjum, þeim mun minni þörf er fyrir viðkomandi í starfsemi fyrirtækisins – minnst fyrir forstjórann. Ágætur bloggari, Andri Geir Arinbjarnarson, benti á það nýlega að launamunur sé að verða með mesta móti á Íslandi, í samanburði við önnur lönd. Lægstu laun eru hér um 214.000 krónur á mánuði en harðsæknustu forstjórarnir – þeir frekustu – eru sagðir komnir með um fimm milljónir á mánuði. Þetta hlutfall er 1:23 en nýlega var kosið um það í Sviss hvort eigi að lögleiða að munurinn á hæstu og lægstu launum skuli aldrei vera meiri en 1:12. Með aukinni stéttaskiptingu fáum við samfélag sem er óréttlátara en það sem fyrir var, óskilvirkara, óskynsamlegra – og leiðinlegra á alla lund. Ekki þarf að hafa mörg orð um skaðsemi þess að alast upp við fátækt en enginn hefur gott af því heldur að fá of mikinn auð of auðveldlega – og hvað þá að alast upp við mikið ríkidæmi þar sem ekkert þarf að hafa fyrir neinu. Slíkt er bara framleiðsla á frekjum og landeyðum.Hinn óstaðfesti sáttmáli En við héldum að hér væri einhvers konar lausbeislaður sáttmáli, ekki kannski beinlínis orðaður neins staðar og ekki bundinn í lagabókstaf, ekki einu sinni stjórnarskrá, og snerist um sameiginlegan skilning okkar sem búum hér og teljum okkur eina þjóð: að við ættum eitt og annað sameiginlegt, menningararf, tungumál, auðlindir í náttúru og hugviti – vissar hugmyndir um mannkosti og æskilega hegðun; vissa ósiði í arf og bresti, drykkjuósiði, vondan mat, mögnuð ljóð, þjóðtrú, jafnaðarmennsku, landlæga andúð á merkikertum og dálæti á sérvitringum. Æ oftar leitar á mann nagandi tilfinning um að einhvers staðar, einhvern tímann og einhvern veginn, hafi sáttmálinn verið rofinn – kannski í Stóru Bólu – og nýr hafi ekki verið gerður heldur ríki nú glundroði, þar sem hver keppist við að toga til sín sitt, með því að útmála hlutskipti sitt sem átakanlegast – en umfram allt: frekjurnar fái mest. Til að bærilegra sé að búa í samfélagi við aðra þarf að ríkja upp að vissu marki einhver slíkur ósagður skilningur – að sjálfsögðu með öllum fyrirvörum um skýlausan rétt hinna sérlunduðu til að skila sem allra flestum sérálitum í sem allra flestum málum. En meðal þess sem talið var íslensku samfélagi til tekna hér í eina tíð var að hér lá um hríð í loftinu viss hugmynd um jafnræði fólks, samgang ólíkra stétta (þannig var það á mínum bernskuslóðum þar sem iðnaðarmenn, verkafólk, listamenn, forstjórar og vísindamenn bjuggu í einni hrúgu); hér var stéttaflökt sem var svolítið skemmtilegt. Eftir því sem launamunurinn eykst hér verður slíkt erfiðara viðfangs, samfélagið verður niðurnjörvaðra og dýnamíkin hverfur úr því. Nú er svo komið að vel menntað fólk, í starfi hjá ríki eða sveitarfélögum, hefur dregist svo mjög aftur úr í launum og starfskjörum – heilbrigðisstarfsfólk, kennarar, slíkar stéttir – að hún verður sífellt þrásæknari sú tilfinning meðal þessa fólks, að of lengi hafi það verið blekkt. Of lengi hafi hvílt á herðum þess eins að halda verðbólgunni í skefjum og ríkissjóði réttum megin við núllið í rekstri sínum. Það hefur horft upp á skattalækkanir til hinna ríku, lækkun veiðigjalds til útgerðarmannanna, verðvernd stjórnvalda sem lýsir sér í því að hátt verð á matvælum og öðrum nauðsynjum er verndað en algjört tómlæti ríkir um rétt neytandans. Og svo framvegis. Þess vegna verða samningar svo erfiðir núna við opinbera starfsmenn á borð við kennara. Sáttmálinn óorðaði hefur verið rofinn. Og það var ekki þetta fólk sem rauf hann.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun