Oj, ógeðslegt Pawel Bartoszek skrifar 14. febrúar 2014 06:00 Hér er saga frá Rússlandi Pútíns: Maður tekur myndir af sér með standpínu og slysast til að dreifa þeim óvarfærnislega. Heilt bæjarfélag fer yfir um. „Hvað með börnin?“ spyr fólk. „Maðurinn býr nálægt skóla!“ (Eins og annað sé hægt í þúsund manna bæ.) Fjölmiðill hringir í manninn. Maðurinn þarf að útskýra að hann sé ekki barnaníðingur. Segist ætla að reyna að fjarlægja myndirnar af netinu. Athæfið er sagt „ógeðfellt“. Myndirnar „viðbjóðslegar“. Já, og ólöglegar þar að auki. Landið er raunar Ísland. Hér eru enn lög í gildi sem banna klám. Það setur Ísland í sama flokk og lönd á borð við Sádi-Arabíu, Súdan, Egyptaland, Kúbu, Írak, Íran, Kína og Norður-Kóreu. Svona lagasetning er algjör sérstaða í vestrænu ríki, en ekki heyrist mér vilji til að breyta þessu. Öflugir hugsjónahópar standa gegn því.Bönn í þágu barna Einhverjir eru á þeirri skoðun að þeir sem taki dónalegar myndir af eigin líkömum án aðkomu annarra, án nokkurs fjárhagslegs ávinnings, og án þess að neinn annar líði neitt fyrir séu lögbrjótar og eigi þá að fara í fangelsi. Og af hverju? Hver eru fórnarlömbin? Jú, börnin! Þessu er beint gegn börnum! Eða öllu heldur: börn gætu séð þetta! Og þetta er svo ógeðslegt. Hópur fólks sem vill varpa ábyrgð á því sem börn þeirra gera, á netinu, sem annars staðar, yfir á aðra. Þetta stjórnlynda fólk mun, í þessu samhengi, aldrei kalla sig annað en „foreldra“ því það gefur þá fölsku mynd að fólkið eigi einhverra hagsmuna að gæta af því hvernig eitthvert allt annað fólk hagar sér. Foreldrar eiga nefnilega börn. Vilja ekki allir passa upp á börnin? Fólk velur hvað það skoðar á netinu. Og ef fólk vill stýra því hvað börn þess skoða á netinu þá verður það bara að gjöra svo vel að vinna þá vinnu sjálft en ekki að ætlast til þess að allir aðrir í heiminum lúti þeirra óskum. Sumir óttast typpamyndir. Ég játa að ég er mun hræddari við fólk sem vill banna og refsa með teygðum vísunum til velferðar barna. Margur viðbjóðurinn hefur verið látinn hvíla á þeim undirstöðum.Skaðsemi af mannavöldum Ef menn ætla að tala um að hin og þessi kynlífshegðun sé slæm eða beinlínis ógeðsleg þá verða menn að nota aðra mælikvarða en bara þá hvað öðrum finnist um hana. Er kynlífshegðunin skaðleg saklausu fólki? Ef hún er það ekki þá getur hún ekki talist lögbrot í frjálslyndu ríki. Alveg sama hvað áhyggjufullum foreldrum finnst. Það ganga sögur af fólki í öðrum löndum sem misst hefur vinnuna í barnaskóla út af því að það hafði einhvern tímann áður leikið í klámmynd. Þessar sögur eru notaðar sem víti til varnaðar. Af hverju er það viðhorfið? Það er samfélagið sem ákveður að útskúfa þessu fólki. Versta afleiðingin af þeirri „afbrigðilegu“ hegðun sem felst í því að láta taka af sér myndir við kynlífsathafnir felst í fordómafullum viðbrögðum annars fólks. Brennimerkingin er ekki náttúruleg. Hún er af mannavöldum. Samkynhneigð er víða mjög hættuleg. Menn geta dáið af því að vera samkynhneigðir, til dæmis í sumum þeirra landa sem nefnd voru hér að ofan. Enn víðar er fólki útskúfað. Er þá í lagi að kalla samkynhneigð skaðlega eða viðbjóðslega í þeim löndum? Auðvitað ekki. Ekki ef einu neikvæðu afleiðingar þess að vera samkynhneigður eru af mannavöldum. „Pabbi kom út úr skápnum og mér er strítt. Vondi pabbi.“Frjálslyndi snýst um frávik Nú má auðvitað hæðast að því að einhver vilji standa vörð um rétt fólks til að taka myndir af sér með standpínu án þess að fá yfir sig yfirheyrslu fjölmiðla, rannsókn lögreglu og útskúfun samfélagsins. Megi þeir sem þykir sú varnarræða skopleg hlæja uns jörðin hættir að snúast. En þetta snýst um frjálslyndi. Frjálslyndi snýst um að umbera einmitt það sem einhverjum finnst skrýtið eða jafnvel ógeðslegt. Það er ekki frjálslyndi að klappa bara af ákafa fyrir því sem aðrir í kringum mann hafa þegar gúdderað. Það heitir bara að fylgja tískunni. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Pawel Bartoszek Mest lesið Teppaleggjum ekki íslenska náttúru með vindorku Halla Hrund Logadóttir Skoðun Halldór 23.11.2024 Halldór Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Miskunnsami nýmarxistinn Kári Allansson Skoðun Furðuleg réttlæting á hækkun verðtryggðra vaxta Marinó G. Njálsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Dýrkeyptur aðgangur Stella Guðmundsdóttir Skoðun „Við andlát manns lýkur skattskyldu hans“ Þórður Gunnarsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun
Hér er saga frá Rússlandi Pútíns: Maður tekur myndir af sér með standpínu og slysast til að dreifa þeim óvarfærnislega. Heilt bæjarfélag fer yfir um. „Hvað með börnin?“ spyr fólk. „Maðurinn býr nálægt skóla!“ (Eins og annað sé hægt í þúsund manna bæ.) Fjölmiðill hringir í manninn. Maðurinn þarf að útskýra að hann sé ekki barnaníðingur. Segist ætla að reyna að fjarlægja myndirnar af netinu. Athæfið er sagt „ógeðfellt“. Myndirnar „viðbjóðslegar“. Já, og ólöglegar þar að auki. Landið er raunar Ísland. Hér eru enn lög í gildi sem banna klám. Það setur Ísland í sama flokk og lönd á borð við Sádi-Arabíu, Súdan, Egyptaland, Kúbu, Írak, Íran, Kína og Norður-Kóreu. Svona lagasetning er algjör sérstaða í vestrænu ríki, en ekki heyrist mér vilji til að breyta þessu. Öflugir hugsjónahópar standa gegn því.Bönn í þágu barna Einhverjir eru á þeirri skoðun að þeir sem taki dónalegar myndir af eigin líkömum án aðkomu annarra, án nokkurs fjárhagslegs ávinnings, og án þess að neinn annar líði neitt fyrir séu lögbrjótar og eigi þá að fara í fangelsi. Og af hverju? Hver eru fórnarlömbin? Jú, börnin! Þessu er beint gegn börnum! Eða öllu heldur: börn gætu séð þetta! Og þetta er svo ógeðslegt. Hópur fólks sem vill varpa ábyrgð á því sem börn þeirra gera, á netinu, sem annars staðar, yfir á aðra. Þetta stjórnlynda fólk mun, í þessu samhengi, aldrei kalla sig annað en „foreldra“ því það gefur þá fölsku mynd að fólkið eigi einhverra hagsmuna að gæta af því hvernig eitthvert allt annað fólk hagar sér. Foreldrar eiga nefnilega börn. Vilja ekki allir passa upp á börnin? Fólk velur hvað það skoðar á netinu. Og ef fólk vill stýra því hvað börn þess skoða á netinu þá verður það bara að gjöra svo vel að vinna þá vinnu sjálft en ekki að ætlast til þess að allir aðrir í heiminum lúti þeirra óskum. Sumir óttast typpamyndir. Ég játa að ég er mun hræddari við fólk sem vill banna og refsa með teygðum vísunum til velferðar barna. Margur viðbjóðurinn hefur verið látinn hvíla á þeim undirstöðum.Skaðsemi af mannavöldum Ef menn ætla að tala um að hin og þessi kynlífshegðun sé slæm eða beinlínis ógeðsleg þá verða menn að nota aðra mælikvarða en bara þá hvað öðrum finnist um hana. Er kynlífshegðunin skaðleg saklausu fólki? Ef hún er það ekki þá getur hún ekki talist lögbrot í frjálslyndu ríki. Alveg sama hvað áhyggjufullum foreldrum finnst. Það ganga sögur af fólki í öðrum löndum sem misst hefur vinnuna í barnaskóla út af því að það hafði einhvern tímann áður leikið í klámmynd. Þessar sögur eru notaðar sem víti til varnaðar. Af hverju er það viðhorfið? Það er samfélagið sem ákveður að útskúfa þessu fólki. Versta afleiðingin af þeirri „afbrigðilegu“ hegðun sem felst í því að láta taka af sér myndir við kynlífsathafnir felst í fordómafullum viðbrögðum annars fólks. Brennimerkingin er ekki náttúruleg. Hún er af mannavöldum. Samkynhneigð er víða mjög hættuleg. Menn geta dáið af því að vera samkynhneigðir, til dæmis í sumum þeirra landa sem nefnd voru hér að ofan. Enn víðar er fólki útskúfað. Er þá í lagi að kalla samkynhneigð skaðlega eða viðbjóðslega í þeim löndum? Auðvitað ekki. Ekki ef einu neikvæðu afleiðingar þess að vera samkynhneigður eru af mannavöldum. „Pabbi kom út úr skápnum og mér er strítt. Vondi pabbi.“Frjálslyndi snýst um frávik Nú má auðvitað hæðast að því að einhver vilji standa vörð um rétt fólks til að taka myndir af sér með standpínu án þess að fá yfir sig yfirheyrslu fjölmiðla, rannsókn lögreglu og útskúfun samfélagsins. Megi þeir sem þykir sú varnarræða skopleg hlæja uns jörðin hættir að snúast. En þetta snýst um frjálslyndi. Frjálslyndi snýst um að umbera einmitt það sem einhverjum finnst skrýtið eða jafnvel ógeðslegt. Það er ekki frjálslyndi að klappa bara af ákafa fyrir því sem aðrir í kringum mann hafa þegar gúdderað. Það heitir bara að fylgja tískunni.