Lífið

Óþekka barnið í íslenskri myndlist

Snorri Ásmundsson telur sig vera einn af þremur bestu málurum í Evrópu.
Snorri Ásmundsson telur sig vera einn af þremur bestu málurum í Evrópu. Mynd/Spessi
„Ég er svo fáránlega fyndinn gaur,“ segir Snorri Ásmundsson myndlistarmaður en hann opnar sýninguna I am so funny í Týsgalleríi í dag klukkan fimm.

Sýningin er tuttugasta og fimmta einkasýningum sem Snorri hefur haldið undanfarin ár, en hann hefur verið iðinn við kolann.

„Ég hef líka verið að taka þátt í fjölmörgum samsýningum hér heima og erlendis,“ bætir hann við, en hann er nýkominn heim frá Vínarborg þar sem hann tók þátt í samsýningunni Franz Graf Programm.

„Ég náði ekki einu sinni að hengja myndirnar mínar upp, þær voru svo fljótar að seljast,“ segir Snorri í léttum tón.

Snorri er þekktur fyrir ýmis uppátæki þar sem hann ögrar og stríðir ríkjandi gildum.

„Ég hef stundum verið kallaður óþekka barnið í íslenskri myndlist en ég er auðvitað krónískur óþekktarangi,“ útskýrir hann og hlær, en hann hefur meðal annars boðið sig fram til borgarstjóra, til embættis forseta Íslands og til formanns Sjálfstæðisflokksins.

„Ég er líka ofvirkur og hef verið að leika í kvikmyndum.“ Snorri lék til dæmis í kvikmyndinni XL eftir Martein Þórsson og þar var Snorri fyrirmyndin að persónunni sem hann lék. Hann var á lista Man Magazine yfir 100 áhrifamestu einstaklingana, enda komið víða við.

Snorri vinnur list sína í ýmsa miðla, hann sýslar við vídeólist og gjörninga af ýmsum stærðargráðum en undanfarin ár hefur málverkið verið honum hugleikið.

„Ég tel mig vera einn af þremur bestu málurum í Evrópu,“ segir Snorri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×