Handbolti

HK getur jafnað slæmt met

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
HK-ingar féllu í síðustu umferð deildarinnar.
HK-ingar féllu í síðustu umferð deildarinnar. Vísir/Daníel
HK féll úr Olís-deildinni í handbolta, svo framarlega sem fjölgun liða í deildinni bjargi því ekki í sumar, eftir tap gegn Haukum á heimavelli sínum í Digranesi á fimmtudaginn.

HK-ingar, sem misstu nánast allt byrjunarlið sitt fyrir tímabilið og hafa átt afar erfitt uppdráttar í vetur, hafa aðeins unnið sér inn þrjú stig í deildinni með einum sigri og einu jafntefli.

Fyrsta stiginu náði liðið strax í fyrstu umferð mótsins þegar það gerði nokkuð óvænt jafntefli við FH, 22-22, í Digranesi en fyrsti og eini sigurinn kom ekki fyrr en 21. nóvember þegar HK vann Fram á heimavelli, 22-19.

Það stefnir allt í að HK, sem er búið að tapa átta leikjum í röð, jafni met Gróttu sem er slakasta liðið í sögu átta liða deildarinnar sem tekin var upp tímabilið 2006/2007.

Metið yfir fæst stig í deildinni er aðeins tveggja ára gamalt en Gróttumenn áttu ekkert erindi í úrvalsdeildina tímabilið 2011/2012 og féllu með þrjú stig. Þeir voru sex stigum frá Aftureldingu sem náði sjöunda sæti og heilum 19 stigum frá öruggu sæti.

HK-ingar hafa fjóra leiki til að næla sér í eitt stig og losna við að jafna árangur Gróttu sem slakasta liðið í sögu átta liða deildarinnar. Kópavogsliðið mætir ÍBV, Fram, FH og Akureyri í síðustu fjórum umferðunum.

Markatala HK-liðsins er þó nú þegar orðin verri en hjá Gróttu fyrir tveimur árum. Grótta var með -124 í markatölu þegar liðið féll 2012 en HK er með -126 og má fastlega búast við að hún verði verri eftir fjóra leiki.

Liðin sem hafa fallið í átta liða deild:

2007: ÍR 10 stig (-77)

2008: ÍBV 9 stig (-232)

2009: Víkingur 7 stig (-86)

2010: Stjarnan 11 stig (-72)

2011: Selfoss 10 stig (-64)

2012: Grótta 3 stig (-124)

2013: Afturelding 12 stig (-49)

*2014: HK 3 stig (-126)

*Fjórir leikir eftir

Árangur Gróttu 2011/2012:

1 sigur - 1 jafntefli - 19 töp 3 stig og markatalan - 124




Fleiri fréttir

Sjá meira


×