Lífið

RÚV ræður öllu um Eurovision-lagið

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Snæbjörn Ragnarsson og Óttar Proppé fara með Pollapönki til Kaupmannahafnar í maí.
Snæbjörn Ragnarsson og Óttar Proppé fara með Pollapönki til Kaupmannahafnar í maí. Fréttablaðið/Stefán
„Við höfum alltaf úrslitavaldið og megum breyta laginu ef við teljum það þjóna laginu betur, við erum framleiðendur lagsins. Það stóð til hjá þeim að flytja lagið á fleiri en einu tungumáli en það var bara búið að þýða viðlagið á ensku fyrir úrslitakvöldið. Við setjumst svo niður með keppendum eftir keppni og skoðum hvað megi betur fara,“ segir Hera Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Söngvakeppninnar.

Framlag Íslands í Eurovision í ár er eins og flestir vita lagið Enga fordóma með Pollapönki og var myndband við lagið frumsýnt á laugardaginn. Lagið er þó ekki á sama tungumáli og áhorfendur kusu þegar að úrslitakeppnin fór fram hér á landi í febrúar. „RÚV-menn ráða þessu alltaf á endanum og við vorum alveg til í að vinna með þeim í því,“ segir Haraldur Freyr Gíslason, söngvari og gítarleikari í Pollapönki, þegar hann er spurður út í tungumálavalið í laginu.

Ef vitnað er í fréttatilkynningu frá RÚV skömmu fyrir úrslitakvöldið kemur eftirfarandi í ljós.

„Í ár verður þó sú nýbreytni kynnt til sögunnar að lögin í einvíginu verða flutt í þeirri útgáfu og á því tungumáli sem stefnt er að að senda til Danmerkur. Þessi breyting er gerð til að áhorfendum gefist kostur á að heyra og velja þann texta og þá útgáfu lagsins sem mun keppa fyrir Íslands hönd í ESC 14.“

Hera Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Söngvakeppninnar.
Hera segir að aðstandendur keppninnar hafi reynt að hafa lagið eins nálægt lokaútgáfunni og hægt var á úrslitakvöldinu. „Það er auðvitað almenningur sem kýs lagið en við höfum alltaf vald til þess að breyta. Við verðum að skoða þetta í stærra samhengi og ræddum mikið um skilaboðin sem þeir eru að koma á framfæri og það skiptir svo miklu máli að boðskapurinn komist til skila. Við teljum það atriðinu fyrir bestu að lagið sé á ensku,“ segir Hera um breytingarnar. Bandaríski tónlistarmaðurinn John Grant þýddi textann.

Haraldur Freyr er þó á því að lagið sé ekki verra á ensku. „Ég er ekki frá því að mér finnist lagið betra á ensku. Lala-kaflinn fær nýtt líf,“ bætir Haraldur Freyr við.

Bakraddasöngvararnir Óttar Proppé og Snæbjörn Ragnarsson, betur þekktur sem Bibbi í Skálmöld, fara með Pollapönki út í lokakeppnina í Kaupmannahöfn í maí. „Við höldum það enn sem komið er að Óttar sé fyrsti þingmaðurinn sem stígur á svið í lokakeppni Eurovision,“ segir Hera.

„Það eru forréttindi að fá að hafa Alþingispolla og slysavarnarpolla/þungarokkspolla á stóra sviðinu í Cirkus Eurosmart í Danmörku,“ segir Haraldur Freyr sem hlakkar mikið til þess að fara út.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×