Saga Stony er nánast ótrúleg því allt byrjaði þetta með myndbandi sem hann setti á YouTube í maí í fyrra þar sem hann spilar sína útgáfu af laginu Can‘t Hold Us sem Macklemore og Ryan Lewis gerðu frægt. Myndbandið fór eins og eldur um sinu um internetið og endaði á vefsíðunum Reddit og Buzzfeed og hefur verið skoðað tæplega milljón sinnum á rás Stonys, StonysWorld.

„Þeir spurðu mig hvort ég væri til í að taka þátt í verkefni en sögðu mér ekki hvað það væri strax. Ég flaug til New York á fyrsta farrými sem er eitthvað sem ég hef aldrei upplifað áður. Í New York fékk ég að vita að þetta væri auglýsing fyrir Pepsi,“ segir Stony. Eftir fundinn fór hann aftur heim til Íslands og nokkrum dögum síðar aftur upp í flugvél – nú til Brasilíu. Tökur á auglýsingunni hófust 7. desember og stóðu yfir í þrjá daga. Því næst var ferðinni heitið til London.
„David Luiz var sá eini sem ég spjallaði almennilega við. Hann er töff gaur með töff hár. Hann vildi að ég kenndi honum að snúa kjuðum þar sem hann hefur mikinn áhuga á trommum. Í tökunum fékk ég aðstoðarmann og bílstjóra. Ég er alls ekki vanur því,“ segir Stony.
Eini knattspyrnumaðurinn sem vantaði í London var Lionel Messi, sem er af mörgum talinn besti fótboltamaður heims. Tökuliðið gerði sér sérferð í einn dag til Barcelona í janúar til að taka upp með honum. Þar lenti Stony í skemmtilegu atviki.

Auglýsingin var frumsýnd í vikunni en Stony segir það hafa verið erfitt að halda hlutverkinu leyndu.
„Þetta er eitt það erfiðasta sem ég hef gert. Ég sagði engum nema foreldrum mínum frá. Það var mikill léttir að geta deilt þessu með fólki,“ segir Stony en von er á nýrri tónlist frá honum á næstu dögum.
„Ég er á fullu að vinna í minni eigin tónlist og er að fara í tökur á nýju myndbandi. Annars er ég opinn fyrir fleiri svona verkefnum og væri frábært að fá fleiri störf enda hef ég mikinn áhuga á tónlist og leiklist og öllu sem tengist því.“