Gamla Ísland Þorsteinn Pálsson skrifar 17. maí 2014 07:00 Verkföll, vinnustöðvanir, skærur, stöðvun samgangna, áætlun um þjóðartekjur í uppnámi og ákvarðanir Alþingis að banna verkföll með lögum. Þetta hefur verið efni fyrirsagna fjölmiðla upp á síðkastið. Hagnýtasta myndefni sjónvarpsstöðvanna eru dagatöl sem sýna vinnustöðvanir framundan. Fyrir unga fólkið í landinu er þetta ný upplifun og hugsanlega spennandi. Kannski er það svo að einhverjir sjái þetta sem leið til að fá hjól framfaranna til að snúast. Fyrir hina sem muna verðbólguárin er aftur á móti engu líkara en gamla Ísland sé komið til baka. Það er ekki spennandi tilhugsun. Með þessu móti má vissulega fá hjólin til að hreyfast. En reynsla og þekking á að geta sagt mönnum að verkurinn er sá að þetta fær þau til að snúast aftur á bak. Sú spurning vaknar hvort hver kynslóð þurfi að læra með því að ganga sjálf á vegginn eða fram af bjargbrúninni. Svo má vera að spurningin sé sú hvort við nennum yfirhöfuð að læra. Rúm þrjátíu ár eru síðan verðbólgan fór yfir eitt hundrað prósent. Tæpur aldarfjórðungur er liðinn frá þjóðarsátt. En það eru ekki nema sex ár síðan þjóðin gekk fram af bjargbrúninni. Og ekki eru liðin nema fjögur ár síðan Rannsóknarnefnd Alþingis birti skýrslu í níu bindum um þá atburði. Ætli einhverjir hafi dregið þá ályktun af því mikla verki að hringrás hækkana á launum, verðlagi og erlendum myntum kæmi hlutunum í samt lag aftur? Eða höfum við ekki gefið okkur tíma til að draga ályktanir af þeim hamförum og því sem fræðimenn hafa skrifað um þær?Raunsæi umfram óskhyggju Sú litla umræða sem spannst í framhaldi af skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis hefur snúist um persónur og leikendur fremur en markmið og leiðir til viðreisnar landinu. Heiftin varð sterkari en framfarahugurinn. Fyrir vikið varð skýrslan aldrei uppspretta lifandi umræðu fyrir nýja tíma. Eftir stendur að hún kemur sagnfræðingum framtíðarinnar að betri notum en þeirri kynslóð sem hún var skrifuð fyrir. Hvers vegna eru fjölmiðlar fleytifullir af gamla Íslandi á vordögum árið 2014? Sennilega er ekki til neitt einhlítt svar við þeirri spurningu. Hvað sem öllum skýringum líður er þó ljóst að það hefur ekki tekist að sameina þjóðina um nýja leið til að ganga eftir til móts við framtíðina. Það eru mistök sem ekki er unnt að skrifa á einn pólitískan reikning. En afleiðingarnar eru bikarinn sem allir þurfa að súpa af. Þegar röð verkfalla blasir við og verðbólgan lúrir handan við næsta horn er hægur vandi að skella skuldinni á óábyrga ráðamenn í röðum launþega og atvinnurekenda. En nú vill svo til að þeir sem standa í stafni fyrir heildarsamtök launafólks og atvinnufyrirtækja á almennum vinnumarkaði hafa boðað nýjar leiðir í þessum efnum og kallað eftir athygli tveggja ríkisstjórna í þeim tilgangi. Samt blasir mynd gamla Íslands við. Þetta ákall byggir á rækilegri sameiginlegri athugun á því hvernig önnur norræn ríki leysa jafn mikilvæg viðfangsefni. Það geymir engar töfralausnir. Satt best að segja gerir það ekki aðrar kröfur en að læra það af öðrum sem við höfum ekki gert jafn vel. En það krefst raunsæis umfram óskhyggju.Málamiðlun andstæðra markmiða Samskipti vinstri stjórnarinnar við heildarsamtökin á almennum vinnumarkaði enduðu þar að báðir málsaðilar töldu sig svikna af hinum. Eftir kosningar og myndun nýrrar ríkisstjórnar fyrir ári lýstu forystumenn atvinnulífs og launafólks eftir skýrri stjórnarstefnu; einkum og sér í lagi á sviði peningamála svo að nýta mætti norrænan lærdóm. Forsætisráðherrann sagðist ekki tala við menn úti í bæ. Og framtíðarstefnan er enn eftirlýst. Með nokkurri einföldun má segja að flokkarnir tveir sem mynduðu vinstri stjórnina hafi haft tvö markmið: Annar vildi færa landið lengst til vinstri eða inn í draumaland sósíalismans. Hinn vildi fara með landið inn í markaðsbúskap Evrópusambandsins. Þeir sömdu um að ganga hönd í hönd að þessum tveimur gagnstæðu markmiðum. Niðurstaðan varð sú að hvorugt markmiðið náðist. Í raun þurfti ekki djúpa hugsun til að sjá það fyrir. Núverandi stjórnarflokkar sameinuðust líka um tvö höfuðmarkmið: Annar vildi setja heimsmet í popúlisma með afturvirkri niðurgreiðslu á verðbólgu úr ríkissjóði. Hinn vildi nýja ábyrga ríkisfjármálastefnu. Hættan er sú að það muni reynast nýju stjórninni jafn erfitt og þeirri fyrri að ganga samtímis bæði áfram og aftur á bak. Ef menn ætla í alvöru að losna við drauga gamla Íslands þarf vitaskuld að miðla málum en þó þannig að menn leitist við að ganga í sömu áttina. Það er sú leiðsögn sem vantar. Í því augnamiði er margt vitlausara en leggja við hlustir þegar forystumenn Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambandsins tala. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Agaleysi í íslenskum skólum - Kennarar þurfa valdið til baka Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Í skugga misvægis atkvæðanna Örn Sigurðsson Skoðun Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun Er samþykki barna túlkunaratriði? Ólöf Tara Harðardóttir Skoðun Halldór 18.01.2025 Halldór
Verkföll, vinnustöðvanir, skærur, stöðvun samgangna, áætlun um þjóðartekjur í uppnámi og ákvarðanir Alþingis að banna verkföll með lögum. Þetta hefur verið efni fyrirsagna fjölmiðla upp á síðkastið. Hagnýtasta myndefni sjónvarpsstöðvanna eru dagatöl sem sýna vinnustöðvanir framundan. Fyrir unga fólkið í landinu er þetta ný upplifun og hugsanlega spennandi. Kannski er það svo að einhverjir sjái þetta sem leið til að fá hjól framfaranna til að snúast. Fyrir hina sem muna verðbólguárin er aftur á móti engu líkara en gamla Ísland sé komið til baka. Það er ekki spennandi tilhugsun. Með þessu móti má vissulega fá hjólin til að hreyfast. En reynsla og þekking á að geta sagt mönnum að verkurinn er sá að þetta fær þau til að snúast aftur á bak. Sú spurning vaknar hvort hver kynslóð þurfi að læra með því að ganga sjálf á vegginn eða fram af bjargbrúninni. Svo má vera að spurningin sé sú hvort við nennum yfirhöfuð að læra. Rúm þrjátíu ár eru síðan verðbólgan fór yfir eitt hundrað prósent. Tæpur aldarfjórðungur er liðinn frá þjóðarsátt. En það eru ekki nema sex ár síðan þjóðin gekk fram af bjargbrúninni. Og ekki eru liðin nema fjögur ár síðan Rannsóknarnefnd Alþingis birti skýrslu í níu bindum um þá atburði. Ætli einhverjir hafi dregið þá ályktun af því mikla verki að hringrás hækkana á launum, verðlagi og erlendum myntum kæmi hlutunum í samt lag aftur? Eða höfum við ekki gefið okkur tíma til að draga ályktanir af þeim hamförum og því sem fræðimenn hafa skrifað um þær?Raunsæi umfram óskhyggju Sú litla umræða sem spannst í framhaldi af skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis hefur snúist um persónur og leikendur fremur en markmið og leiðir til viðreisnar landinu. Heiftin varð sterkari en framfarahugurinn. Fyrir vikið varð skýrslan aldrei uppspretta lifandi umræðu fyrir nýja tíma. Eftir stendur að hún kemur sagnfræðingum framtíðarinnar að betri notum en þeirri kynslóð sem hún var skrifuð fyrir. Hvers vegna eru fjölmiðlar fleytifullir af gamla Íslandi á vordögum árið 2014? Sennilega er ekki til neitt einhlítt svar við þeirri spurningu. Hvað sem öllum skýringum líður er þó ljóst að það hefur ekki tekist að sameina þjóðina um nýja leið til að ganga eftir til móts við framtíðina. Það eru mistök sem ekki er unnt að skrifa á einn pólitískan reikning. En afleiðingarnar eru bikarinn sem allir þurfa að súpa af. Þegar röð verkfalla blasir við og verðbólgan lúrir handan við næsta horn er hægur vandi að skella skuldinni á óábyrga ráðamenn í röðum launþega og atvinnurekenda. En nú vill svo til að þeir sem standa í stafni fyrir heildarsamtök launafólks og atvinnufyrirtækja á almennum vinnumarkaði hafa boðað nýjar leiðir í þessum efnum og kallað eftir athygli tveggja ríkisstjórna í þeim tilgangi. Samt blasir mynd gamla Íslands við. Þetta ákall byggir á rækilegri sameiginlegri athugun á því hvernig önnur norræn ríki leysa jafn mikilvæg viðfangsefni. Það geymir engar töfralausnir. Satt best að segja gerir það ekki aðrar kröfur en að læra það af öðrum sem við höfum ekki gert jafn vel. En það krefst raunsæis umfram óskhyggju.Málamiðlun andstæðra markmiða Samskipti vinstri stjórnarinnar við heildarsamtökin á almennum vinnumarkaði enduðu þar að báðir málsaðilar töldu sig svikna af hinum. Eftir kosningar og myndun nýrrar ríkisstjórnar fyrir ári lýstu forystumenn atvinnulífs og launafólks eftir skýrri stjórnarstefnu; einkum og sér í lagi á sviði peningamála svo að nýta mætti norrænan lærdóm. Forsætisráðherrann sagðist ekki tala við menn úti í bæ. Og framtíðarstefnan er enn eftirlýst. Með nokkurri einföldun má segja að flokkarnir tveir sem mynduðu vinstri stjórnina hafi haft tvö markmið: Annar vildi færa landið lengst til vinstri eða inn í draumaland sósíalismans. Hinn vildi fara með landið inn í markaðsbúskap Evrópusambandsins. Þeir sömdu um að ganga hönd í hönd að þessum tveimur gagnstæðu markmiðum. Niðurstaðan varð sú að hvorugt markmiðið náðist. Í raun þurfti ekki djúpa hugsun til að sjá það fyrir. Núverandi stjórnarflokkar sameinuðust líka um tvö höfuðmarkmið: Annar vildi setja heimsmet í popúlisma með afturvirkri niðurgreiðslu á verðbólgu úr ríkissjóði. Hinn vildi nýja ábyrga ríkisfjármálastefnu. Hættan er sú að það muni reynast nýju stjórninni jafn erfitt og þeirri fyrri að ganga samtímis bæði áfram og aftur á bak. Ef menn ætla í alvöru að losna við drauga gamla Íslands þarf vitaskuld að miðla málum en þó þannig að menn leitist við að ganga í sömu áttina. Það er sú leiðsögn sem vantar. Í því augnamiði er margt vitlausara en leggja við hlustir þegar forystumenn Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambandsins tala.
Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun
Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun