Hinn tvíræði sigurvegari Guðmundur Andri Thorsson skrifar 2. júní 2014 00:00 Hafi Samfylkingin verið ótvíræður sigurvegari í Reykjavík var Framsókn hinn tvíræði sigurvegari. Hún fór undan í flæmingi þegar knúið var á um skýr svör um moskumálið, sagði það sem hentaði hverju sinni, talaði tungum tveim en undirtextinn var ævinlega sá sami: Hér er múslimaógn sem enginn þorir að tala um nema við. Á köflum mátti skilja málatilbúnaðinn sem svo að kosið væri um það hvort sett yrðu sjaríalög á næstunni og þess að vænta að farið yrði að höggva hendur af þjófum og drekkja konum fyrir hórdóm, eins og kristnir menn gerðu að vísu um aldir. Kosningabarátta Framsóknar í höfuðborginni var kaldrifjuð. Skeytingarleysið um málefni og raunveruleg úrlausnarefni í borginni var algjört. Kannski kominn tími til að ræða „þessi mál“, eins og það var orðað um daginn í málgagni Framsóknar, Reykjavíkurbréfi Moggans.Mannréttindi Mannréttindi ná til allra. Þau eru líka handa „hinum“. Þau eru líka handa fólki sem manni líkar ekkert sérstaklega vel við. Þau eru meira að segja handa alveg ómögulegu fólki, jafnvel beinlínis vondu fólki. Þau eru allsherjarregla. Þau eru ekki umbun fyrir góða hegðun heldur sjálfur grundvöllurinn sem þjóðfélag okkar hvílir á: við fæðumst til þeirra og þurfum að fyrirgera rétti okkar til þeirra með glæpsamlegri hegðun; erum þá sett á bak við lás og slá um skeið og öðlumst þau á ný þegar við erum frjáls. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir því fyrirfram að við munum ekki eiga þau skilið. Og það er ekki hægt að láta kjósa um þau: meirihluti þegnanna getur ekki kosið um mannréttindi tiltekinna minnihlutahópa, eins og tillaga Framsóknar í moskumálinu var einhvern tímann farin að snúast um. Ég og vinir mínir í götunni getum ekki kosið um það hvort nýi nágranninn eigi að njóta þeirra. Hann hefur þau óháð vilja okkar og dyntum. Eins er það með trúmálin: Meðlimir Þjóðkirkjunnar geta ekki greitt atkvæði um það hvort eða hvernig til dæmis mormónum skuli leyft að starfa. Fari mormónar að lögum og reglum samfélagsins tryggir trúfrelsið þeim sama rétt og öðrum til þess að tigna sína guði – og boða þá – eins og þeir telja rétt að gera. Þetta er reyndar prýðilega orðað í stefnuskrá Framsóknarflokksins: „Við berjumst fyrir mannréttindum, virðingu fyrir einstaklingnum og fjölskyldunni. Við höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki t.d. eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða stjórnmálaskoðunum. Við munum ávallt verja skoðana- og tjáningarfrelsi, trúfrelsi og friðhelgi einkalífs.“„Kærleikurinn umber allt“ Frjálslyndi er eftirsóknarvert. Umburðarlyndi er dyggð. Það er ein meginstoð hins opna samfélags þar sem tekist er á um mál með rökræðum og deilur leiddar til lykta með lögformlegum hætti. Þetta táknar að við umberum fólk sem við skiljum ekki eða jafnvel þolum ekki. Að umbera eitthvað táknar ekki að maður samþykki það skilmálalaust eða afsali sér réttinum til að andæfa því, kjósi maður það, heldur hitt að maður viðurkennir rétt þess til að vera til. Manneskja getur til dæmis verið með blátt hár, sem okkur kann gersamlega að blöskra. Við getum samt sem áður ekki hringt í lögregluna og farið þess á leit við hana að hún skipi viðkomandi að vera með eðlilegt hár. Manneskja getur tilbeðið guð sinn með skringilegum kokhljóðum og afkáralegum hreyfingum. Okkur má alveg finnast það sprenghlægilegt og við megum tuða yfir því við kvöldmatarborðið, en við getum ekki bannað fólki að vera til á sínum eigin forsendum og við eigum að sýna því háttvísi. Þetta er umburðarlyndi – sem er dyggð. Það er ekki barnaskapur og það er ekki veiklyndi heldur útheimtir það staðfestu, þroska og hugrekki, að virða rétt annarra til að vera öðruvísi en maður sjálfur, berjast jafnvel fyrir honum. Í kosningabaráttunni heyrðist að kirkjur væru bannaðar í einhverjum Arabalöndum, sem að vísu er rangt, en þó svo væri: Þetta snýst um okkar samfélag og hvernig við ætlum að hafa það, og hér ríkir trúfrelsi. Það er ekki dyggð í sjálfu sér að „segja eitthvað sem ögrar“ eins og forsætisráðherra hrósar frambjóðanda sínum í Reykjavík fyrir; segi maður nógu frámunalega vitleysu gengur hún auðvitað fram af einhverjum, en það gefur vitleysunni ekki gildi í sjálfu sér að hafa gert það. Skoðanaglamur er eitt ofmetnasta fyrirbæri okkar tíma. Það er ekki dyggð að næra og nærast á minnimáttarkennd fólks sem þarf að upplifa virði sitt og sérleik sinn með neikvæðri upplifun á öðrum. Slíkt er lítilmannlegt. Og nú í byrjun 21. aldar eigum við ekki að standa í trúarbragðadeilum. Við eigum ekki að dæma aðra eftir sambandi þeirra – eða sambandsleysi – við guðdóminn. Samfélagið á að hafa sínar leiðir til að grípa inn í þegar trúarbrögð eru notuð til að misnota varnarlitla einstaklinga í slíkum hópum, kúga, áreita eða misbjóða með öðrum hætti, eins og ótal dæmi sanna að gerst hefur, þegar tilteknir einstaklingar taka sér vald yfir andlegu lífi margra annarra. Öll þau dæmi sem við þekkjum um slíkt eru hins vegar úr kristnum söfnuðum. Enginn maður hér á landi hefur mér vitanlega krafist þess að tekin verði upp sjaríalög – og komi til þess skulum við bara svara viðkomandi með viðeigandi hætti þegar þar að kemur. Ekkert í framgöngu múslima á Íslandi réttlætir það gjörningaveður sem magnað hefur verið í kaldrifjuðum atkvæðaveiðum Framsóknar. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að íslensku samfélagi stafi frekari ógn af múslimum en til dæmis sudoku-iðkendum eða áhangendum Manchester United. Helsta ógnin við samfélagið kemur að innan og felst í fordómum, fáfræði, misskiptingu, ótta, andlegri leti, dómhörku, þröngsýni, eymennsku, minnimáttarkennd, neikvæðni, uppnámi og almennri geðvonsku. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Halldór 02.11.24 Halldór Baldursson Halldór Innflutt skautun í boði Viðreisnar Hópur ungra Sjálfstæðiskvenna Skoðun Að græða 33.400 fótboltavelli Jóna Bjarnadóttir Skoðun Viltu lækka í launum? Jónella Sigurjónsdóttir Skoðun Íslenskan til valdeflingar en ekki valdbeitingar Derek T. Allen Skoðun Verklausi milljónakennarinn Þórunn Sveinbjarnardóttir Skoðun Unglingavandamálið Jón Gnarr Skoðun Stöndugur efnahagur og sterk velferð – undirstaða hvors annars Alma D. Möller Skoðun Kæri frambjóðandi! Stefanía Björg Jónsdóttir Skoðun Hvert er „útlendingavandamálið“? Karen Kjartansdóttir Skoðun
Hafi Samfylkingin verið ótvíræður sigurvegari í Reykjavík var Framsókn hinn tvíræði sigurvegari. Hún fór undan í flæmingi þegar knúið var á um skýr svör um moskumálið, sagði það sem hentaði hverju sinni, talaði tungum tveim en undirtextinn var ævinlega sá sami: Hér er múslimaógn sem enginn þorir að tala um nema við. Á köflum mátti skilja málatilbúnaðinn sem svo að kosið væri um það hvort sett yrðu sjaríalög á næstunni og þess að vænta að farið yrði að höggva hendur af þjófum og drekkja konum fyrir hórdóm, eins og kristnir menn gerðu að vísu um aldir. Kosningabarátta Framsóknar í höfuðborginni var kaldrifjuð. Skeytingarleysið um málefni og raunveruleg úrlausnarefni í borginni var algjört. Kannski kominn tími til að ræða „þessi mál“, eins og það var orðað um daginn í málgagni Framsóknar, Reykjavíkurbréfi Moggans.Mannréttindi Mannréttindi ná til allra. Þau eru líka handa „hinum“. Þau eru líka handa fólki sem manni líkar ekkert sérstaklega vel við. Þau eru meira að segja handa alveg ómögulegu fólki, jafnvel beinlínis vondu fólki. Þau eru allsherjarregla. Þau eru ekki umbun fyrir góða hegðun heldur sjálfur grundvöllurinn sem þjóðfélag okkar hvílir á: við fæðumst til þeirra og þurfum að fyrirgera rétti okkar til þeirra með glæpsamlegri hegðun; erum þá sett á bak við lás og slá um skeið og öðlumst þau á ný þegar við erum frjáls. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir því fyrirfram að við munum ekki eiga þau skilið. Og það er ekki hægt að láta kjósa um þau: meirihluti þegnanna getur ekki kosið um mannréttindi tiltekinna minnihlutahópa, eins og tillaga Framsóknar í moskumálinu var einhvern tímann farin að snúast um. Ég og vinir mínir í götunni getum ekki kosið um það hvort nýi nágranninn eigi að njóta þeirra. Hann hefur þau óháð vilja okkar og dyntum. Eins er það með trúmálin: Meðlimir Þjóðkirkjunnar geta ekki greitt atkvæði um það hvort eða hvernig til dæmis mormónum skuli leyft að starfa. Fari mormónar að lögum og reglum samfélagsins tryggir trúfrelsið þeim sama rétt og öðrum til þess að tigna sína guði – og boða þá – eins og þeir telja rétt að gera. Þetta er reyndar prýðilega orðað í stefnuskrá Framsóknarflokksins: „Við berjumst fyrir mannréttindum, virðingu fyrir einstaklingnum og fjölskyldunni. Við höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki t.d. eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða stjórnmálaskoðunum. Við munum ávallt verja skoðana- og tjáningarfrelsi, trúfrelsi og friðhelgi einkalífs.“„Kærleikurinn umber allt“ Frjálslyndi er eftirsóknarvert. Umburðarlyndi er dyggð. Það er ein meginstoð hins opna samfélags þar sem tekist er á um mál með rökræðum og deilur leiddar til lykta með lögformlegum hætti. Þetta táknar að við umberum fólk sem við skiljum ekki eða jafnvel þolum ekki. Að umbera eitthvað táknar ekki að maður samþykki það skilmálalaust eða afsali sér réttinum til að andæfa því, kjósi maður það, heldur hitt að maður viðurkennir rétt þess til að vera til. Manneskja getur til dæmis verið með blátt hár, sem okkur kann gersamlega að blöskra. Við getum samt sem áður ekki hringt í lögregluna og farið þess á leit við hana að hún skipi viðkomandi að vera með eðlilegt hár. Manneskja getur tilbeðið guð sinn með skringilegum kokhljóðum og afkáralegum hreyfingum. Okkur má alveg finnast það sprenghlægilegt og við megum tuða yfir því við kvöldmatarborðið, en við getum ekki bannað fólki að vera til á sínum eigin forsendum og við eigum að sýna því háttvísi. Þetta er umburðarlyndi – sem er dyggð. Það er ekki barnaskapur og það er ekki veiklyndi heldur útheimtir það staðfestu, þroska og hugrekki, að virða rétt annarra til að vera öðruvísi en maður sjálfur, berjast jafnvel fyrir honum. Í kosningabaráttunni heyrðist að kirkjur væru bannaðar í einhverjum Arabalöndum, sem að vísu er rangt, en þó svo væri: Þetta snýst um okkar samfélag og hvernig við ætlum að hafa það, og hér ríkir trúfrelsi. Það er ekki dyggð í sjálfu sér að „segja eitthvað sem ögrar“ eins og forsætisráðherra hrósar frambjóðanda sínum í Reykjavík fyrir; segi maður nógu frámunalega vitleysu gengur hún auðvitað fram af einhverjum, en það gefur vitleysunni ekki gildi í sjálfu sér að hafa gert það. Skoðanaglamur er eitt ofmetnasta fyrirbæri okkar tíma. Það er ekki dyggð að næra og nærast á minnimáttarkennd fólks sem þarf að upplifa virði sitt og sérleik sinn með neikvæðri upplifun á öðrum. Slíkt er lítilmannlegt. Og nú í byrjun 21. aldar eigum við ekki að standa í trúarbragðadeilum. Við eigum ekki að dæma aðra eftir sambandi þeirra – eða sambandsleysi – við guðdóminn. Samfélagið á að hafa sínar leiðir til að grípa inn í þegar trúarbrögð eru notuð til að misnota varnarlitla einstaklinga í slíkum hópum, kúga, áreita eða misbjóða með öðrum hætti, eins og ótal dæmi sanna að gerst hefur, þegar tilteknir einstaklingar taka sér vald yfir andlegu lífi margra annarra. Öll þau dæmi sem við þekkjum um slíkt eru hins vegar úr kristnum söfnuðum. Enginn maður hér á landi hefur mér vitanlega krafist þess að tekin verði upp sjaríalög – og komi til þess skulum við bara svara viðkomandi með viðeigandi hætti þegar þar að kemur. Ekkert í framgöngu múslima á Íslandi réttlætir það gjörningaveður sem magnað hefur verið í kaldrifjuðum atkvæðaveiðum Framsóknar. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að íslensku samfélagi stafi frekari ógn af múslimum en til dæmis sudoku-iðkendum eða áhangendum Manchester United. Helsta ógnin við samfélagið kemur að innan og felst í fordómum, fáfræði, misskiptingu, ótta, andlegri leti, dómhörku, þröngsýni, eymennsku, minnimáttarkennd, neikvæðni, uppnámi og almennri geðvonsku.